
Hann hafði gengið 12 kílómetra til að ná í mat. Og rétt eftir að veikburða drengurinn fékk litla matarpakka, hóf ísraelski herinn skothríð.
Þetta er frásögn Anthony Aguilar, bandarísks fyrrverandi hermanns, sem sagði frá reynslu sinni í nýlegu viðtali. Aguilar, sem áður starfaði fyrir svokölluð Mannúðarsamtök Gasa, GHF, hefur varað heiminn við þeirri matarúthlutun sem Bandaríkin og Ísrael styðja.
Reiði hefur blossað upp vegna GHF og frásagna Aguilar, sem hann hefur deilt með bandarískum þingmönnum og blaðamönnum.
Í viðtali við ísraelska aðgerðasinnann Offir Gutelzon og blaðakonuna Noga Tarnopolsky í hlaðvarpi UnXeptable í vikunni rifjaði Aguilar upp að hinn ungi Amir hefði komið til hans þegar mannfjöldinn var farinn að yfirgefa úthlutunarstöðina.
Aguilar sýndi ljósmyndir af drengnum sem hann kallar Amir, litlu barni sem virtist ekki eldra en 10 til 12 ára.
„Hann réttir fram höndina, og ég kalla á hann: „Komdu hingað.“ Hann kemur, tekur í höndina á mér, kyssir hana og segir „takk“, á ensku“ rifjaði Aguilar upp.
En fundi þeirra lauk skyndilega þegar „piparúða, táragasi, sprengjum og byssukúlum“ var skotið niður við fætur Amirs og hópsins sem enn beið eftir aðstoð, samkvæmt lýsingum Aguilars.
Þegar „síðasti hópurinn, konur og börn og ungabörn,“ yfirgaf svæðið, sagðist Aguilar hafa heyrt vélbyssuskothríð frá ísraelska hernum.
„Þeir eru að skjóta til að stjórna íbúunum meðfram Morag-leiðinni [milli Khan Yunis og Rafah]. Og á meðan þeir gera það, skjóta þeir inn í þennan mannfjölda … og Palestínumenn, óbreyttir borgarar, mannverur, falla til jarðar, skotnir,“ sagði hann.
„Og Amir var einn af þeim. Amir gekk 12 kílómetra til að fá mat, fékk aðeins afganga, þakkaði okkur fyrir það, og dó,“ sagði hann.
Heilbrigðisyfirvöld hafa greint frá því að yfir 1.000 Palestínumenn hafi verið drepnir við að leita eftir hjálp síðan GHF hóf starfsemi sína í lok maí, en það kerfi tók við af aðstoðarkerfi Sameinuðu þjóðanna sem áður sá um matvæladreifingu á svæðinu.
Alls hafa að minnsta kosti 60.249 Palestínumenn verið drepnir á Gasaströndinni frá því stríðið hófst 7. október 2023, þó talan sé af mörgum talin miklu hærri.
Endurhlaðið síðuna til að sjá myndbandið af frásögn hjálparstarfsmannsins.
Komment