
Anna Kristjánsdóttir ætlar að fagna mögulegum meistaratitli Liverpool í dag, þrátt fyrir að halda ekki með liðinu.
Hið fornfræga knattspyrnulið Liverpool FC, getur í dag tryggst sér Englandsmeistaratitilinn en Mo Salah og félögum hans dugar jafntefli á móti Tottenham en leikurinn fer fram í Bítlaborginni klukkan 15:30 að íslenskum tíma. Vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir segist í nýjustu dagbókarfærslu sinni ekki vera áhangandi Liverpool en ætli samt að fagna mögulegum titli þeirra í dag.
„Dagur 2084 – Ég er ekki púlari en samt.
Ég viðurkenni alveg að ég hefi aldrei haldið með Liverpool í enska boltanum, en lesendur mínar vita mætavel hvert er uppáhaldsliðið í enska boltanum sem gjarnan er kennt við bæ sem er þekktur fyrir framleiðslu sína á Quality Street eða Mackintosh hvar hetjurnar okkar í Fótboltasamvinnufélagi Halifaxhrepps eiga sinn heimavöll.“
Þannig hefst dagbókarfærsla Önnu sem hún birti í dag á Facebook. Segist hún ekki geta annað en fagnað með liðinu en viðurkennir að hún fái stundum hóstakast þegar þegar illa gengur hjá Liverpool.
„Það breytir ekki því að Liverpool eru búnir að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn þótt hann sé ekki orðinn formlegur. Ég get ekki annað en fagnað með þeim. Þeir eru vel að titlinum komnir og ekkert annað í myndinni en að fagna með þeim. Ég viðurkenni þó alveg að ég fæ stundum hóstakast að hætti Nenna vinar vors frá Akranesi þegar allt gengur á afturfótunum hjá Liverpool, en um leið er ég manneskja til að viðurkenna ósigurinn og óska þeim til hamingju með frábæran árangur. Við sem styðjum hetjurnar okkar í Fótboltasamvinnufélagi Halifaxhrepps höfum ólympísku hugsjónina að leiðarljósi, „það er ekki spurningin hver vinnur, aðalatriðið er að vera með“.“
Að lokum lýsir Anna restina af deginum sínum á paradísareyjunni Tenerife, þar sem hún hefur búið síðastliðin fimm ár.
„Ég reikna fastlega með því að fara á Nítjándu holuna í dag að afloknu pönnukökuáti á Nostalgíu og fylgjast með og samfagna nágranna mínum fyrir neðan mig, þ.e. ef Liverpool vinnur eða gerir jafntefli gegn liðinu sem er fyrir neðan „okkar fólk“ í enska boltanum.“
Komment