
Átta ára drengur var stunginn á grunnskóla í Melbourne í Ástralíu og var skólasvæðinu lokað vegna atviksins.
Ellefu ára drengur er nú yfirheyrður vegna málsins, sem átti sér stað í Brentwood Park-grunnskólanum í Melbourne, Ástralíu í morgun, áður en skólabjallan hringdi. Bæði Brentwood Park og Kambrya College, nærliggjandi framhaldsskóli við Bemersyde Drive, var lokað um klukkan 9.
Lögreglan í Victoria greindi frá því að bæði fórnarlambið og starfsmaður skólans, sem einnig hlaut minniháttar meiðsli, hafi fengið aðhlynningu á vettvangi og ekki þurft flutning á sjúkrahús.
Talið er að hinn 11 ára drengur, sem er í 6. bekk, hafi ráðist á kennara áður en hann stakk einnig nemanda í 2. bekk og annan í 3. bekk. Tveir aðrir eldhúshnífar voru sagðir hafa fundist í tösku drengsins. Lögregla ræddi við drenginn áður en hann var fluttur á sjúkrahús til mats.
Talsmaður menntayfirvalda sagði að unnið væri með skólanum eftir atvik þar sem ungur nemandi hefði sýnt „hættulega hegðun“.
„Skólinn setti öryggisferla í gang og lögregla og sjúkraflutningamenn komu á vettvang,“ sagði talsmaðurinn. „Við styðjum bæði starfsmanninn og nemandann og veitum aukinn stuðning þeim sem þess þurfa.“

Komment