
Jakarta, höfuðborg Indónesíu, hefur bannað sölu og neyslu á hunda-, katta- og leðurblökukjöti til að koma í veg fyrir smit á hundaæði.
„Ég hef undirritað reglugerðina sem bannar sölu á dýrum til manneldis sem bera hundaæði,“ sagði Pramono Anung, ríkisstjóri Jakarta, í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum, mánuði eftir að hafa lofað að gera það.
Reglugerðin, sem Pramono sagði að hann hefði undirritað í gær, veitir sex mánaða aðlögunartímabil áður en hún tekur gildi, samkvæmt skjali sem AFP fékk að sjá.
Brot gegn reglunum geta leitt til viðurlaga, allt frá skriflegum viðvörunum til þess að fyrirtækjaleyfi verði afturkölluð.
Ríkisstjórinn sagði að bannið næði til „lifandi dýra, kjöts eða annarra afurða“ og legði bann við öllum „athöfnum sem tengjast dýrum sem geta borið hundaæði og eru ætluð til manneldis“.
Indónesía er eitt fárra landa sem leyfa sölu á hunda- og kattakjöti, en andstaðan við þessa iðju hefur aukist og nokkrar borgir hafa síðustu ár sett á staðbundin bönn við slíkum viðskiptum.
Dýraverndunarsinnar fögnuðu banninu í Jakarta sem skrefi í rétta átt.
Heilbrigðisráðuneyti Indónesíu hefur greint frá 25 dauðsföllum frá janúar til mars 2025 tengdum hundaæði.
Komment