
Hinn ástsæli leikari Björgvin Franz Gíslason úlnliðsbrotnaði illa eftir að bílstjóri bakkaði næstum því á hann þar sem hann var á hlaupahjóli. Þó að leikarinn hafi sloppið við ákeyrslu, féll hann af hjólinu og mölbraut á sér úlnliðinn. Segist hann heppinn að hafa verið með hjálm.
Björgvin skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook þar sem hann imprar á því við bílstjóra að fylgjast vel með hjólafólki.
„Jæja allir að vera með hjálma og bílstjórar PLÍS fylgist þið vel með hjólreiðafólki. Var á litlum hraða á hjólastíg þegar bílstjóri bakkar hratt næstum á mig. Ég rétt næ að forða mér en fylgist ekki nógu vel með og flýg framfyrir mig af hjólinu beint á andlitið og á hendurnar. Sem BETUR fer var ég nýbúinn að fá mèr lokaðan mótorhjólahjálm því annars væri ég líklega að panta nýjan kjálka OG tennur af Temu. Vinstri úlliðurinn molbrotnaði en andlitið slapp þökk sè hjálminum. Annars bara stórt hrós til bráðamóttökunnar sem tók svo vel á móti mèr. ENGAR áhyggjur þetta hefur gerst áður þannig að ég er vanur að leika Elsu Lund í fatla Sjáumst í Borgarleikhúsið.“

Mannlíf heyrði stuttlega í Björgvini og spurði hann út í slysið og hvort bílstjórinn hefði brugðist við þegar hann féll í götuna.
„Heyrðu nei, þegar ég leit til baka var hann bara enn í símanum, var ekki einu sinni að fylgjast með. Hann var bara algjörlega oblivious, bara í símanum. Þannig að plís fylgist þið með, það eru skilaboð mín til bílstjóra!“

Björgvin var að flýta sér í prufu fyrir Galdrakarlinn í Oz en vildi endilega vekja athygli á þessu. Bætti hann að lokum við:
„Auðvitað má alveg deila um það hvort miðaldra karl með ADHD á lokastigi eigi að vera að þvælast á hlaupahjóli, en ég er mjög vanur. Ég er ógeðslega góður á hlaupahjóli en þetta var mitt eigið hjól og ég var ekki einu sinni að fara hratt. Ég hef slasað mig áður en aldrei á neinum hraða.“
Komment