
Björk Aðalsteinsdóttir, húsmóðir og handmenntakennari á Eskifirði, andaðist á dvalarheimilinu Hulduhlíð 2. október síðastliðinn, 73 ára að aldri.
Björk fæddist á Eskifirði 26. maí 1952. Foreldrar hennar voru Aðalsteinn Jónsson, útgerðarmaður á Eskifirði, oft nefndur Alli ríki, og Guðlaug Kristbjörg Stefánsdóttir húsmóðir. Systkini hennar voru Eiríka Elfa Aðalsteinsdóttir, f. 1948, d. 1999, og Kristinn Aðalsteinsson, f. 1956.
Björk ólst upp á Eskifirði og bjó þar alla sína tíð, að undanskildum námsárum. Hún lauk námi frá Kennaraskólanum og starfaði um tíma sem handmenntakennari við Eskifjarðarskóla.
Eftirlifandi eiginmaður Bjarkar er Þorsteinn Kristjánsson, f. 1950, skipstjóri og forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju. Þau gengu í hjónaband árið 1974 og hafa síðan staðið saman að rekstri og uppbyggingu Eskju.
Börn þeirra eru Daði Þorsteinsson, f. 1974, sambýliskona Sædís Eva Birgisdóttir, Erna Þorsteinsdóttir, f. 1977, sambýlismaður Ingólfur Davíð Sigurðsson, og Aðalsteinn Jónsson Þorsteinsson, f. 1982, sambýliskona Ása María Þórhallsdóttir.
Fyrir átti Björk soninn Elfar Aðalsteins, f. 1971, giftur Önnu Maríu Pitt. Sonur Þorsteins af fyrra sambandi er Guðjón Þór Þorsteinsson, f. 1970, giftur Matthildi Þórarinsdóttur.
Barnabörn Bjarkar og Þorsteins eru 18 talsins og langömmu- og langafabörnin fimm.
Útför Bjarkar fer fram í Eskifjarðarkirkju laugardaginn 11. október klukkan 14.
Komment