
Rannsóknarblaðamenn Dossier Center hafa borið kennsl á nokkra starfsmenn rússnesku leyniþjónustunnar FSB sem tengdir eru meintum tilraunum til að eitra fyrir Alexei Navalny, sem sjálfur sakaði rússnesk yfirvöld um að hafa reynt að svipta hann lífi þrisvar sinnum.
Tvær tilraunir voru gerðar árið 2020, annars vegar í júlí í fríi í Kaliningrad, þar sem eiginkona hans, Yulia Navalnaya, varð fyrir eitrun, og hins vegar í Tomsk í ágúst sama ár. Dossier Center telur að tilraun hafi einnig verið gerð í byrjun árs 2017 í Kirov, þegar Navalny mætti fyrir endurupptöku máls sem laut að meintum fjárdrætti úr timburfyrirtæki á svæðinu. Navalny sagðist þá hafa orðið fyrir óútskýrðum veikindum í flugi.
Samkvæmt Dossier Center fylgdi hópur að minnsta kosti sjö einstaklingum Navalny til Kirov í tengslum við réttarhöldin. Einn þeirra var Sergei Filippov, starfsmaður í „Annarri deild“ FSB, sem ber ábyrgð á baráttu gegn hryðjuverkum og vernd stjórnarskrár.
„Starf þessa embættis beinist að því að berjast gegn þeim öflum sem rússnesk yfirvöld telja ógna þeim. Starfsmenn deildarinnar hafa komið að öllum þekktum aðförum gegn stjórnarandstöðufólki, bæði við eftirlit og til að tryggja yfirhylmingu,“ segir í skýrslu Dossier Center.
Frá janúar 2017 bættust fleiri við í hóp Filippovs, þar á meðal Alexey Alexandrov (sem tók þátt í hinni banvænu eitrunartilraun í Tomsk og ferðaðist til Kaliningrad þegar grunur vaknaði um eitrun Yuliu Navalnaya), Konstantin Kudryavtsev (sem í opinberu símtali við Navalny játaði í raun aðkomu sína), og FSB-mennirnir Alexander Samofal og Alexey Krivoshchekov. Einnig voru yfirforingjarnir Valery Sukharev og Roman Mezentsev hluti af hópnum.
Ferðuðust á fölskum vegabréfum
FSB-fylgdarmennirnir notuðu dulnefni og vegabréf á fölskum nöfnum, s.s. Nikolai Gorokhov, Vitaly Karpov, Alexander Kozhin, Petr Kotov og Alexander Artemov. Kotov fylgdi Navalny á kosningaferðum til Vladivostok, Arkhangelsk og Astrakhan haustið 2017. Í nóvember fylgdust Kotov og Artemov með honum í Irkutsk, og í desember fór Kotov á eftir Navalny til Novokuznetsk. Gorokhov og Vladimir Panyaev, annar grunaður úr eitrunarhópnum, ferðaðust einnig með þeim.
Blaðamenn fundu út að falskt vegabréf á nafni „Petr Kotov“ hafði verið notað af Stanislav Makshakov, sem talinn er hafa stjórnað eitrunartilrauninni gegn Navalny. Makshakov er nú yfirmaður Rannsóknastofnunar FSB í réttarlæknisfræði og fylgdi sjálfur Navalny í að minnsta kosti sjö ferðum.
Í október 2016 var Makshakov í Kirov ásamt Mikhail Kuklev, öðrum starfsmanni réttarlæknisfræðistofnunar FSB. Gögn sýna að Kuklev hélt áfram reglulegum samskiptum við Makshakov fjórum árum síðar, þegar eitrað var fyrir Navalny í Tomsk 2020. Í mars 2024, mánuði eftir andlát Navalny í alríkisfangelsi á rússnesku norðurslóðunum, heimsótti Kuklev Altai-hérað, þar sem staðsett er sérstök rannsóknarstöð sem sérhæfir sig í að fjarlægja ummerki efnavopna. Meðlimir eitrunarhóps FSB höfðu áður heimsótt sömu stöð árið 2020. Dossier Center telur að ferðin í mars 2024 kunni að hafa tengst tilraunum til að fela sönnunargögn um eitrunina sem að lokum varð Navalny að bana.
Þá kom í ljós að Vitaly Senchenko, líklegur starfsmaður Annarrar deildar FSB, notaði vegabréf á nafnið Vitaly Karpov. Hann ferðaðist einnig undir sínu eigin nafni ásamt Konstantin Kudryavtsev, Alexander Samofal og Valery Sukharev. Samofal notaði jafnframt vegabréf á nöfnin Alexander Kozhin og Alexander Artemov.
Dossier Center greindi einnig nokkra aðra FSB-liða sem fylgdu þeim sem þegar eru tengdir aðförunum gegn Navalny.
Ivan Osipov, sem tók þátt í eitrunartilrauninni í Tomsk, var í fylgd Dmitry Kolodochka í ferð til Volgograd í október 2017. Navalny var þó ekki í borginni á þeim tíma en heimsótti hana mánuði síðar. Í ágúst 2018 fór Osipov til Velsk í Arkhangelsk-héraði ásamt FSB-mönnunum Dmitry Goloimov og Vladislav Kolychev.
Í janúar 2019 var Alexey Alexandrov í Yoshkar-Ola ásamt Andrey Khitunov frá réttarlæknisfræðistofnun FSB og Vadim Lyakhov, sem ekki er skráður með opinbert starf í tiltækum gögnum, sem Dossier Center segir benda til tengsla við rússnesku öryggisstofnanirnar.
Komment