
Emma Heming Willis, eiginkona leikarans Bruce Willis, hefur nú opinberað að þau hjónin búi nú sitt í hvoru lagi til að hægt sé að sinna þörfum hans sem best. Bruce greindist með fram- og gagnaugablaðs heilabilun (FTD) árið 2023.
Í nýjum heimildarþætti útskýrði Emma að þótt þessi ákvörðun hafi verið ein sú erfiðasta sem hún hafi þurft að taka, hafi hún vitað að það væri það sem Bruce myndi óska fyrir dætur þeirra. „Hann myndi vilja að þær væru á heimili sem væri meira sniðið að þeirra þörfum, ekki hans,“ sagði hún.
Emma býr því með dætrum þeirra, Mabel og Evelyn, á öðru heimili fjölskyldunnar. „Það er hús fullt af ást, hlýju, umhyggju og hlátri. Það hefur verið fallegt að sjá hversu margir vinir Bruce halda áfram að sýna honum stuðning. Þeir koma með líf og gleði inn í aðstæðurnar,“ sagði hún.
Fyrrverandi eiginkona leikarans, Demi Moore, og dætur þeirra saman, Rumer Willis (36), Scout Willis (33) og Tallulah Willis (31), heimsækja Bruce einnig reglulega.
Emma sagðist óska þess að hún gæti spurt eiginmann sinn einfaldra spurninga. „Ég myndi vilja vita hvernig honum líður, hvort hann sé hræddur, hvort hann hafi áhyggjur, eða hvort við gætum stutt hann betur. Ég myndi bara vilja eiga samtal við hann,“ sagði hún.
Þrátt fyrir að heilsa hans sé almennt góð hefur málgeta hans farið versnandi. „Hann er enn mjög hreyfanlegur og í góðu líkamlegu formi, það er bara heilinn sem bregst honum. Við höfum fundið leið til að eiga samskipti sem er öðruvísi, en ég er þakklát að eiginmaður minn sé mjög mikið ennþá hér,“ sagði Emma.
Árið 2022 tilkynnti fjölskylda Bruce að hann myndi hætta störfum í kvikmyndum eftir að hafa greinst með málstol (aphasia), taugasjúkdóm sem hefur áhrif á hæfni til tjáningar. Í yfirlýsingu fjölskyldunnar á þeim tíma sagði meðal annars
„Vegna þessara heilsufarsvandamála og eftir mikla íhugun hefur Bruce ákveðið að stíga til hliðar frá ferlinum sem hefur þýtt svo mikið fyrir hann.“
Fjölskyldan bætti við að þetta væri krefjandi tími en þau stæðu saman sem sterk eining. Þau þökkuðu aðdáendum stuðninginn og hvöttu þá áfram til að „njóta lífsins,“ eins og Bruce hefði sjálfur oft sagt.
Komment