
Daniel Cornic, mikill Íslandsvinur, er látinn í Frakklandi, 72 ára að aldri.
Daniel fæddist í Bretagne 17. mars 1953. Eftir skólagöngu og herþjónustu stofnaði hann, ásamt eiginkonu sinni Brigitte, fyrirtækið Cornic SAS, síðar Cornic – Novamer SAS, sem sérhæfði sig í sölu og dreifingu sjávarafurða.
Fljótlega hófst samstarf við Iceland Seafood og SH um innflutning á frystum sjávarafurðum, auk þess sem fyrirtækið varð umboðsaðili SÍF Union í Frakklandi fyrir saltaðar fiskafurðir. Á 9. og 10. áratug síðustu aldar urðu þessi viðskipti mjög umfangsmikil, og var Cornic-fyrirtækið eitt stærsta viðskiptafyrirtæki Frakka í innflutningi á íslenskum sjávarafurðum. Undanfarin ár hafa viðskiptin einkum verið við Brim, Samherja, Þormóð ramma (nú Ísfélagið), GRUN Grundarfirði og Leo Seafood í Vestmannaeyjum.
Fyrir um 15 árum keypti félag á vegum Daniels hlut í Ísfangi hf. á Ísafirði og, með milligöngu þess félags, var fjárfest í nokkrum fasteignum á Ísafirði. Daniel seldi sinn hlut í fasteignunum fyrir um fimm árum. Á síðasta ári fjárfesti hann í Laxey hf. í Vestmannaeyjum, sem stunda landeldi á laxi.
Daniel heimsótti Ísland reglulega til að styrkja viðskiptasambönd og ferðast um landið. Í gegnum árin skapaði hann traust og vináttu við fjölmarga aðila í sjávarútvegi og varð mikilvægur tengiliður milli Íslands og Frakklands.
Ferðir hans til Íslands voru þó ekki einungis í viðskiptaskyni. Frá 9. áratug síðustu aldar kom hann nánast árlega í tæp 40 ár til laxveiða, aðallega í Norðurá og Víðidalsá, auk fleiri áa. Í Reykjavík gisti hann jafnan á Hótel Holti.
Viðskipti og tengsl Daniels Cornic við Ísland spanna rúm 40 ár. Hann hafði sterka tengingu við land og þjóð og lagði sitt af mörkum til að efla orðstír íslenskra sjávarafurða í Frakklandi.
Jarðarför hans fer fram í Fécamp í Normandí 25. nóvember næstkomandi.
Mbl.is sagði frá andlátinu.

Komment