
Bergur Guðnason sendi pakka með íslenskum klæðum til hins heimsfræga tónlistarmanns Drake, frá fyrirtækinu 66°Norður fyrir þremur árum.
„Svo liðu þrjú ár og ekkert gerðist. Svo allt í einu poppar hann upp í fyrradag í þessum random bol sem er búinn að vera í línunni okkar í 15 ár eða eitthvað. Mjög skemmtilegt, sko,“ sagði hann í þættinum Ísland vaknar.
Það vakti að vonum talsvert mikla athygli þegar einn þekktasti tónlistarmaður heims, Drake, sást og kom fram klæddur flíkum frá 66°Norður.
Bergur Guðnason fatahönnuður og einn af aðalhönnuðum hjá 66°Norður greindi frá því hvernig langermabolurinn Aðalvík og jakkinn Kría rötuðu til tónlistarmannsins Drake og hvaða áhrif slíkt gæti mögulega haft á ímynd sem og sýnileika vörumerkisins.
Drake birtist í Aðalvík-bolnum á tónleikum Central Cee í heimaborg sinni, Toronto í Kanada, og kom það Bergi mjög svo skemmtilega á óvart.
Bergur er spurður að því hvernig flík frá 66°Norður á litla Íslandi komst í hendur heimsfrægs tónlistarmanns á borð við Drake.
„Mikið af þessu kemur í gegnum persónulegt tengsl. Þetta er oft minna en fólk heldur, að tengjast þessu fólki. Það er oft í gegnum persónuleg tengsl sem maður er með sjálfur, að koma fötum á þetta lið.“
Klæðin sendi Bergur til Drake í gegnum fatahönnuð er hann kynntist í Frakklandi, en þar starfaði Bergur um tíma.
Sá hönnuður vann þá að verkefnum fyrir Drake, en lítið gerðist í langan tíma varðandi Drake og íslensku klæðin.
„Svo liðu þrjú ár og ekkert gerðist. Svo allt í einu poppar hann upp í fyrradag í þessum random bol sem er búinn að vera í línunni okkar í 15 ár eða eitthvað. Mjög skemmtilegt,“ sagði hann og bætti því við að slík athygli geti gert afar mikið fyrir fyrirtækið; einkum nú þegar það horfir út fyrir landsteinana.
Fleiri frægir einstaklingar hafa klæðst fötum frá merkinu síðustu misserin; má þar nefan bæði tónlistarfólk og knattspyrnumenn.
„Allt þetta hjálpar okkur rosa mikið í öllu markaðsefni þegar við erum að tala við bransafólk – þegar fótboltamenn og fólk eins og Drake fara í fötin okkar.“
Og Bergur segir að fjölmörg skemmtileg verkefni séu í vinnslu hjá 66°Norður.
„Við erum að vinna með tónlistarfólki og sjáum til hvort við getum gert meira með Drake.“
Komment