
Anna Kristjánsdóttir, fyrrum vélstjóri og einn fyndnasti Íslendingurinn, var ein af mörgum sem fylgdist með íslenska karlalandsliðinu í handbolta algjörlega rústa sænska liðinu í gærkvöldi en í nýrri færslu Önnu segist hún bera sterkar tilfinningar til Svíþjóðar.
„Handboltalandsleikurinn í gær fór ekki eins og ég hafði spáð. Þegar sænski þjóðsöngurinn var leikinn stóð ég auðvitað upp, barði mér á brjóst og söng hástöfum „Du gamla, du fria du fjällhöga nord“,“ skrifar Anna um leikinn og tekur fram að hún hafi gert slíkt hið sama þegar íslenski þjóðsöngurinn var spilaður.
„Það stóðst einmitt þegar þjóðsöngnum lauk að ég fékk tilkynningu í símann minn í gegnum frændfólk mitt frá sænskri lögfræðistofu varðandi erfðamál þar sem ég var beðin um að afsegja mér arfshluta mínum í hálfhrundu húsi nærri Oscarshamn. Mér varð svo mikið um að ég gleymdi að setja upp sænska fánann og því fór sem fór að Íslendingarnir unnu strákana okkar með yfirburðum og ég fór grátandi heim,“ heldur Anna áfram.
„Bíddu, ég fór ekkert grátandi heim. Ég var heima hjá mér allan tímann með lokað út svo enginn sæi sænsku þjóðrembuna í mér. Með því að afsegja mér arfshluta minn í hálfhrundu húsi nærri Oscarshamn get ég með góðri samvisku hætt að kalla mig Svía, nema auðvitað við hátíðleg tækifæri eins og þegar Svíþjóð vinnur Ísland í handbolta. Auðvitað fagnaði ég að leikslokum þótt ég hafi sagt annað, en ég á samt bæði íslenska og sænska fána inni í litla herbergi sem ég dreg fram á hátíðlegum stundum eins og 6. og 17. júní.“

Komment