
Samfélagsmiðlastjarnan Lína Birgitta Sigurðardóttir opnar sig um erfiða lífsreynslu úr æskunni í nýjasta blaði Vikunnar.
Þar segir Lína frá því þegar faðir hennar var handtekinn og dæmdur í fangelsi þegar hún var ung.
„Þarna vorum við ekki búin að ná í hann í einhvern tíma og vissum ekki hvar hann var. Við héldum að hann væri týndur og vorum með miklar áhyggjur. Síðan hringdi allt í einu föðuramma mín í mömmu og sagði að hann hefði verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli,“ sagði Lína í viðtalinu.

„Það kom prestur heim til okkar til að segja okkur frá því sem hafði gerst. Mér fannst það alltaf dálítið skrítið. Þetta var örugglega alveg eðlilegt og hann hefur vafalaust verið fenginn til að veita okkur einhvers konar sáluhjálp en ég man bara að inni í mér var ég að hugsa: Af hverju er prestur heima hjá mér?“
Mál föður hennar rataði í fjölmiðla og meðal annars á forsíðu DV og þurfti Lína að undirbúa sig andlega fyrir það en hún hafði fengið að vita að það stæði til.
„Ég var mikið að hugsa hvernig krakkarnir í skólanum myndu taka þessu. Myndu þau stríða mér? Myndi einhver skjóta á mig með einhverjum kommentum?“ en faðir hennar var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á tæpu kílói af kókaíni og tæpu kílói af amfetamíni.
„Ég var að fermast þarna ekki svo löngu síðar og hann fékk dagsleyfi til að koma í ferminguna mína, í lögreglufylgd. Ég man að ég var þakklát fyrir að hafa hann þar, en ég var líka sár að taka á móti honum í þessum aðstæðum.“
Komment