
Írski stórleikarinn Liam Cunningham, deildi harmsögu ungrar stúlku frá Gaza, á blaðamannafundi rétt fyrir brottför Sumud smábátaflotans frá Barcelona í gær.

Liam, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í Game Of Thrones þáttunum, er partur af aðgerðarsinnum frá 40 löndum sem nú stefna á að koma hjálpargögnum til Gaza sjóleiðis en flotinn neyddist í dag til þess að sigla til baka og bíða af sér storm.
Leikarinn taldi mikilvægt að rödd frá Gaza heyrðist á blaðamannafundinum og spilaði söng ungrar palestínskrar stúlku, Fatimu Abu Daqqa úr síma sínum.
„Þjóðarmoriðð snýst ekki um tölfræði eða ályktanir Sameinuðu þjóðanna, heldur snýst það um fólk og sérstaklega fólkið á Gaza.“ Þannig hófst hjartnæm ræða írska leikarans. Og hann hélt áfram: „Og við ættum í raun að leyfa rödd einhvers þaðan að hljóma á þessum blaðamannafundi. Og mig langar að kynna ykkur fyrir ungri stúlku en hún heitir Fatima. Og hún er algjörlega gullfalleg,“ sagði Liam og sýndi blaðamönnum mynd af Fatimu.
„Og hún er með fallega rödd. Og ég ætla að leyfa ykkur að hlusta á nokkrar sekúndur af söng hennar.“ Saklaus og falleg rödd Fatimu hljómaði úr síma leikarans en ástæða söngs hennar er hörmuleg.
„Fatima er að syngja þetta lag af því að hún er að skipuleggja sína eigin jarðarför. Hún vill að þetta lag verði sungið í jarðarför hennar. Hvers konar heim erum við allt í einu komin í þar sem börn, fallegir englar eins og hún, fimm eða sex ára, eru að skipuleggja sína eigin jarðarfarir? Hvar stöndum við? Hvað munu börn okkar og barnabörn horfa til baka á þetta skelfilega tímabil í tilveru okkar sem manneskjur? Hvernig getum við horft á barnabörn okkar þegar þau spyrja okkur hvernig við gátum látið þetta gerast?“
Liam útskýrði síðan hvers vegna hann minntist á Fatimu litlu.
„Þannig að það er ógeðslegt að barn eða nokkur manneskja er sett í þessa stöðu. Og endir þessarar sögu er sá að fyrir fjórum dögum lést Fatima í árás Ísraela. Einhver mun nú syngja þetta lag yfir líki þessa barns. Þess vegna sit ég nú við þetta borð. Og þess vegna er þessi bátafloti svona mikilvægur. Og Vestrænar ríkisstjórnir hefðu átt að gera þessa báta ónauðsynlega. Og sú staðreynd að þið eruð hér og að bátaflotinn sé hér, er vísbending um mistök heimsbyggðarinnar við að halda uppi alþjóðalögum og mannréttindalögum. Og þetta er skammarlegt tímabil í mannkynssögunni. Og við ættum öll að skammast okkar og við þurfum að standa upp og stöðva þetta eins fljótt og hægt er.“
Komment