
Stjórn Evrópuhreyfingarinnar hefur ráðið Snærós Sindradóttur sem framkvæmdarstjóra hreyfingarinnar. Snærós hefur þegar hafið störf segir í tilkynningu frá samtökunum.
„Það er okkur í stjórn Evrópuhreyfingarinnar sönn ánægja að fá Snærós til starfa fyrir hreyfinguna til að halda utan um daglegan rekstur hennar og leggja okkur lið í baráttunni sem framundan er. Markmið Evrópuhreyfingarinnar er að Íslendingar fái, sem fyrst, að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að með ráðningu framkvæmdastjóra færist aukinn þungi í þá baráttu hreyfingarinnar og markmið okkar náist,“ segir Magnús Árni Skjöld Magnússon formaður Evrópuhreyfingarinnar.
Samkvæmt tilkynningunni hefur Snærós starfað í fjölmiðlum í 12 ár, fyrst á Fréttablaðinu, síðar á RÚV og svo á Birtíngi. Á RÚV stýrði Snærós deild sem sá um framleiðslu og miðlun fjölmiðlaefnis til ungs fólks, stýrði Morgunútvarpi Rásar 2 um tveggja ára skeið, sem og stýrði og framleiddi fjölda annarra þátta bæði í útvarpi, sjónvarpi og hlaðvarpi.
Snærós hefur kennt blaðamennsku við Budapest Metropolitan University og sinnir stundakennslu við Háskólann á Akureyri á haustönn 2025 og við Háskóla Íslands á vorönn 2026. Snærós hefur starfað á eigin vegum við fjölmiðlaráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja, veitt ráðgjöf um strategíu og ásýnd, ritstýrt tímaritum fyrir frjáls félagasamtök og kennt námskeið á sviði fjölmiðlunar og hlaðvarpsframleiðslu.
Snærós er eigandi SIND gallery sem opnaði í Reykjavík síðsumars.
Snærós er með meistaragráðu í rekstri menningarstofnana frá Budapest Metropolitan University segir í tilkynningunni og gráðu í listfræði við Háskóla Íslands og Columbia University í New York.
Komment