
Viðvörun um flóðbylgju hefur verið gefin út eftir að þrír stórir jarðskjálftar, þar af einn af stærðinni 7,4, mældust undan Kyrrahafsströnd Rússlands, að því er fram kemur á vef Bandarísku jarðvísindastofnunarinnar (USGS).
Upptök skjálftanna voru um 140 kílómetra austur af borginni Petropavlovsk-Kamchatsky, höfuðborg Kamtsjatka-héraðsins.
Samkvæmt upplýsingum USGS áttu þrír öflugir jarðskjálftar sér stað á sama svæði undan strönd Petropavlovsk-Kamchatsky innan 32 mínútna. Tveir þeirra mældust 6,7 að stærð og sá þriðji 7,4. Tæpum hálftíma áður hafði einnig verið skráður skjálfti af stærðinni 5,0 á sama svæði.
Reuters greinir frá því að viðvörun um flóðbylgju hafi í fyrstu verið gefin út fyrir Rússland og Hawaiiríki í Bandaríkjunum, samkvæmt bandarísku flóðbylgjumiðstöðinni. Viðvörunin fyrir Hawaii var síðar afturkölluð.
Þrír eftirskjálftar mældust einnig skömmu síðar, sá öflugasti 6,6 að stærð.
Þýska jarðskjálftamælingastofnunin GFZ staðfesti einnig að minnsta kosti einn skjálfta af stærðinni 6,7 austan Kamtsjatka hafi átt sér stað í dag, en síðar uppfærði hún stærð hans í 7,4.
Petropavlovsk-Kamchatsky er með yfir 163.000 íbúa samkvæmt upplýsingum á vef borgarinnar. Borgin stendur á austurströnd Kamtsjatkaskaga, við Kyrrahafið norðaustur af Japan og vestur af Alaska í Bandaríkjunum, handan Beringssunds.
Kamtsjatkaskagi er þar sem Kyrrahafsplatan og Norður-Ameríkuplatan mætast og telst það svæði vera jarðskjálftamiðja með mikla jarðskjálftavirkni.
Síðan árið 1900 hafa sjö skjálftar af stærðinni 8,3 eða meira orðið á þessu svæði.
Komment