
Lítil flugvél hrapaði í bakgarð í íbúðahverfi í Suður-Kaliforníu og létust tveir einstaklingar um borð, auk þess sem hús skemmdust, að sögn yfirvalda.
Slökkvilið Ventura-sýslu sagði að tilkynningar hefðu borist seinnipart laugardags um að lítil flugvél hefði hrapað á tvö hús í Simi Valley, sem er norðvestur af Los Angeles. Lögregla og skrifstofa réttarmeinafræðings staðfestu að tveir væru um borð í flugvélinni og hefðu þeir báðir látist í slysinu, samkvæmt færslu slökkviliðsins á Twitter. Ekki urðu slys á fólki sem var ekki í vélinni.
Myndir og myndbönd sem slökkviliðið birti sýna slökkviliðsmenn á þaki húss með götum og rifinn girðingavegg milli húsa. Lögreglan í Simi Valley sagði að vélin hefði fundist í bakgarði heimilis.
Lögreglan sagði við CBS News að flugmaður, farþegi og hundur hefðu verið um borð þegar flugvélin hrapaði um klukkan 14:00 að staðartíma.
Samkvæmt CBS sögðu yfirvöld að flugvélin hefði verið af gerðinni Van's RV-10 og hafði tekið á loft frá William J. Fox flugvellinum í Los Angeles-sýslu og stefndi til Camarillo-flugvallar í nágrannasýslunni Ventura.
Komment