
Fyrrverandi eiginkona ABBA goðsagnarinnar Björns Ulvaeus, Lena, er látin, 76 ára gömul en hún var gift Björni Ulvaeus í 41 ár.
Umboðsmaður Björns Ulvaeus, Görel Hanser, staðfesti andlátið fyrst við tímaritið Svensk Damtidning.
„Ég sakna hennar afar mikið. Það er mjög sorglegt að hún sé látin. Ég hugsa oft til hennar þótt við höfum skilið fyrir fjórum árum. Og á þessari sorgarstund hugsa ég sérstaklega til barna okkar, Emmu og Önnu,“ segir Ulvaeus í viðtali við Expressen.
Tengiliður Björns Ulvaeus við fjölmiðla segir við Aftonbladet að listamaðurinn hyggist ekki tjá sig frekar um málið.
Giftu sig árið 1981
Lena og Björn Ulvaeus gengu í hjónaband árið 1981 og eignuðust saman tvö börn.
Þau kynntust á nýársfögnuði á heimili Benny Andersson og Anni-Frid Lyngstad. Björn hafði þá nýlega skilið við Agnethu Fältskog, aðeins nokkrum dögum áður.
Hjónin ákváðu að fara sitt í hvora áttina árið 2022.
„Eftir mörg yndisleg og viðburðarík ár höfum við ákveðið að skilja. Við höldum áfram að vera nánir og góðir vinir og munum áfram fagna afmælum barnabarna okkar og öðrum fjölskylduviðburðum saman,“ sögðu þau í sameiginlegri yfirlýsingu í gegnum talsmann Ulvaeus.

Komment