
Í glænýju grínmyndbandi ræðst Edda Björgvinsdóttir, í gervi Guðríðar gömlu, gegn blaðamönnum fyrir að uppljóstra um njósnir og spillingu auðmanna.
„Ég segi, nú er komið nóg!“ segir Guðríður gamla í nýjasta grínmyndbandi Eddu Björgvinsdóttur,leikkonu og þjóðargersemar. Og sú gamla heldur áfram: „Þið þarna fréttasnápar. Það er sama rassgatið undir ykkur öllum. Það má enginn Íslendingur vera smávegis loðinn undir lófunum, nei, þá er bara ráðist á hann!“
Og Guðríður hefur ekki sagt sitt síðasta: „Þá er ráðist á hann með offorsi og látum og meira að segja ráðist á lögregluna,“ segir Guðríður og klökknaði. Heldur svo áfram: „Þó þeir þéni smá aukapening, hvaða viðbjóðsárásir eru þetta? Ég bara þoli þetta ekki!“
Að lokum beinir sú gamla orðum sínu að útgerðareigendunum og gagnrýninni sem auglýsingar SFS hafa fengið að undanförnu: „Og menn eru kannski að eignast fiskinn sem Íslendingar vildu hvort sem er ekki. Við viljum ekki sjá þennan fisk og þið megið bara eiga hann strákar mínir. Og bankarnir, við vildum þá ekki heldur. Nei, það er ráðist á alla og ég ætla að segja ykkur eitt, að það væri réttast ef við Gyða systir kæmum, girtum niður ykkur brækurnar og rassskelltum ykkur alla sem einn!“
Hér má sjá hið bráðfyndna myndskeið:
Komment