
Tónlistarmaðurinn Gunnlaugur Reynisson, vel þekktur sem Gulli Reynis, lést í morgun.
Eiginkona hans, Erla Björk Hauksdóttir, greindi frá þessu í dag.
„Kæru vinir og vandamenn, hann Gulli okkar lést eftir hetjulega baráttu við krabbamein snemma í morgun á Líknardeild Landspítalans. Fjölskyldan þakkar þann hlýhug sem honum var sýndur í veikindum sínum.“
Gulli sagði frá veikindunum í einlægu viðtali við Mannlíf í sumar. Hann hafði verið ötull í að halda minningu og tónlist tvíburabróður síns, Halla Reynis, á lofti frá því að Halli lést árið 2019, aðeins 52 ára að aldri. Gulli hélt tónleika til heiðurs bróður sínum í maí síðastliðnum.
Gulli stóð síðan sjálfur frammi fyrir dauðanum en hann greindist með sjaldgæft og illvígt krabbamein í fyrra. Í desember síðastliðnum fékk hann þær fréttir að lyfin væru hætt að virka á meinið.
„Það er mjög stutt. Auðvitað veit maður ekkert hvað maður á mikið eftir, skilurðu? En ég geri mér ekki meiri væntingar en tvo til þrjá mánuði. Maður vonar það besta, heldur í vonina með það,“ sagði hann þá.
Fjölmargir hafa í dag vottað fjölskyldu hans virðingu sína og kvatt hann.
Komment