
Birta Karen Tryggvadóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur á undanförnum vikum vakið athygli fyrir myndbönd á TikTok sem hún hefur komið fram í þar sem hún gagnrýnir fyrirhuguð veiðigjöld sem ríkisstjórnin ætlar að koma á.
Það kemur hins vegar ekki fram í myndböndunum að hún starfi fyrir SFS eða myndböndin séu á vegum þess en myndböndin eru birt á reikningi sem heitir Ekkert slor. Smelli fólk sérstaklega á þann reikning má sjá að sá reikningur er í eigu SFS en Heimildin greinir frá þessu.
„Ég er líka hagfræðingur – nema ég er ekki á mánaðarlaunum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi – og frá einum hagfræðingi til annars þá veit ég ekki hvort það sé sniðugt að setja þessar upplýsingar fram á þennan hátt. Þú veist alveg að þetta er ekki svona einfalt,“ segir Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Pírata og nemandi í hagfræði við Harvard-háskóla, á TikTok.
„Myndi ég alltaf segja: „Ég vinn fyrir SFS”. Því það eru hagsmunatengsl þarna, það er ekkert hægt að neita því. En ég er ekki að segja að það sé eitthvað að því í sjálfu sér. En ég myndi alltaf vera opinber með það.“
Komment