
Í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá andláti Gunnars Gunnarssonar, skálds og rithöfundar á Skriðuklaustri, verður efnt til sérstakrar minningardagskrár laugardaginn 15. nóvember í Veröld – húsi Vigdísar og Eddu – húsi íslenskunnar. Viðburðurinn ber yfirskriftina Að tilheyra engum bókmenntum og er hluti af viku íslenskunnar.
Gunnarsstofnun stendur fyrir dagskránni í samstarfi við Bókmenntaborgina og fleiri aðila. Fyrri hluti dagsins fer fram í Auðarsal þar sem haldið verður opið málþing um Gunnar, bókmenntir innflytjenda og skáldsögu hans Aðventu. Þar munu fræðimenn og rithöfundar ræða hvernig Gunnar var í raun eins konar innflytjendahöfundur bæði í Danmörku og á Íslandi, auk þess sem staða höfunda af erlendum uppruna verður til umræðu.
Eftir hádegi, klukkan 13, hefst einstakur upplestur á Aðventu þar sem um þrjátíu lesarar flytja textann á yfir tuttugu tungumálum í rýmum Veraldar og Eddu. Vera Illugadóttir les íslensku útgáfuna, en aðrir lesarar eru meðal annars sendiherrar, þýðendur, rithöfundar, fræðimenn og bókmenntaunnendur.
Aðventa verður lesin í heild sinni og tekur lesturinn um tvo klukkutíma. Gestir geta annað hvort setið í ró og hlýtt eða gengið milli málheima til að upplifa fjölbreytnina.
Skáldsagan hefur verið þýdd á yfir tuttugu tungumál og á síðustu tíu árum hafa bæst við fimmtán nýjar þýðingar. Sú nýjasta er enska þýðing Philips Roughton, sem kom út hjá Penguin Random House í Bretlandi í október.
Nánar má lesa um dagskrána á www.skriduklaustur.is.
Aðgangur er ókeypis á báða viðburði.

Komment