
Hernaðar- og stjórnmálasérfræðingar telja að hótanir Donald Trump um yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi grafi undan NATO og geti reynst Vladimir Pútín mikill ávinningur.
Keir Giles, hernaðarsérfræðingur hjá Chatham House, segir Meduza að Kreml sé líklega „alsælt“ yfir því að Trump setji þrýsting á Evrópu. „Þessi röskun á NATO er stærsta gjöfin sem Trump hefur hingað til fært Pútín,“ segir Giles og bætir við að þetta sýni að vernd bandalagsins sé afar lágt í forgangi hjá Trump og nánustu ráðgjöfum hans.
Að mati Giles myndu Bandaríkin í raun ekki hagnast hernaðarlega á því að ná yfirráðum yfir Grænlandi, þar sem þau hafi nú þegar víðtæk réttindi þar. Skaðinn sem slíkt skref myndi valda NATO vegi hins vegar mun þyngra. Hann bendir jafnframt á að aukin bandarísk stjórn á GIUK-sundinu, siglingaleiðinni milli Grænlands, Íslands og Bretlands, gæti jafnvel gagnast Rússlandi, þar sem Bandaríkin séu um þessar mundir síður andsnúin rússneskum hagsmunum.
Milli steins og sleggju
Rússneskur stjórnmálafræðingur, sem ræddi við Meduza undir nafnleynd, segir Evrópu nú vera „föst milli tveggja árásarsinna“, Bandaríkja Trumps í vestri og Rússlands Pútíns í austri. Hann telur að Rússland geti nýtt ástandið til að stilla sér upp sem raunhæfum samstarfsaðila Washington á kostnað Evrópu.
Sérfræðingurinn varar þó við því að þróunin sé ekki áhættulaus fyrir Moskvu. Bandaríkin séu farin að hegða sér á alþjóðavettvangi „eins og Rússland, nema á sterum“, sem geti haft víðtækari afleiðingar þar sem hernaðar- og efnahagslegur styrkur Bandaríkjanna sé margfalt meiri.
Þrátt fyrir það telja sérfræðingarnir að Grænlandsmálið styrki stöðu Putins innanlands og gefi einræðis- og öfgahægriöflum í Evrópu aukið sjálfstraust. Að þeirra mati sýnir málið veikleika evró-atlantísku samstöðunnar og gæti haft varanleg áhrif á öryggiskerfi Evrópu.

Komment