
Illugi Jökulsson veltir fyrir sér af hverju einhver ætti að vilja vera páfi, nú þegar velja þarf nýjan páfa í kjölfar andláts Frans páfa.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson skrifaði Facebook-færslu í dag þar sem hann fer yfir launamál páfans. Ekki þarf það að koma á óvart en Frans var annálað góðmenni sem lagði mikla áherslu á að gefa peninga til góðgerðamála.
„Af hverju vilja allir þessir kallar verða páfi? Ja, ég get alla vega upplýst ykkur um að það er EKKI út af kaupinu. Páfi er nefnilega kauplaus með öllu. Hann fær vissulega frítt fæði og húsnæði og Vatíkanið borgar fyrir hann föt (vitanlega úr páfafatabúðinni Gammarelli) og leggist hann í ferðalög, þá er það borgað upp í topp. Páfinn þarf ekki að bera mikið af tilfallandi útgjöldum en séu þau einhver, þá borgar Vatíkanið.“
Illugi segir því næst frá síðasta verki Frans, áður en hann lést.
„Hann hefur líka aðgang að sérstökum sjóði í Vatíkaninu sem hann getur notað að eigin vali til að styrkja góðgerðasamtök og þessháttar. Eitt allra síðasta verk Frans var einmitt að millifæra af þeim reikning inn á styrktarreikning fanga í nágrenni Vatíkansins sem hann heimsótti örfáum dægrum fyrir andlát sitt. Þannig að páfi þarf sem sagt ekki að hafa peningaáhyggjur en hins vegar er enginn gróðavegur að verða páfi.“
Fjölmiðlamaðurinn bætir svo að lokum við leiðréttingu, þar sem formlega séð eigi páfi rétt á góðum launum en að Frans hefði hafnað þeim alfarið.
„Viðbót: Upplýsingar mínar voru ekki allskonar réttar. Formlega séð á páfi rétt á launum og meira að segja dágóðum launum, eða tæpum fimm milljónum króna á mánuði. Þessi laun hafa hins vegar yfirleitt verið látin renna upp í kostnað við embættið og Frans hafnaði þeim alfarið, en í staðinn voru launin látin renna í góðgerðasjóði hans.“
Komment