
Jón Ásgeirsson tónskáld lést í gær, 97 ára gamall, á hjúkrunarheimilinu Eir. Jón var meðal ástsælustu tónskálda þjóðarinnar og er einkum minnst fyrir sönglög sem hafa fylgt Íslendingum um áratuga skeið. Má þar nefna Maístjörnuna, Augun mín og augun þín, Vor hinsti dagur og Hjá lygnri móðu. Frá andlátinu greindi RÚV.
Jón fæddist á Ísafirði árið 1928 og átti langan og merkan feril í tónlist. Hann starfaði bæði sem tónskáld, kennari og rithöfundur um tónlist, stjórnaði kórum, lúðrasveitum og Sinfóníuhljómsveit Íslands í eigin verkum og samdi tónlist fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir.
Eftir Jón liggja um 90 einsöngslög, auk fjölda kammerverka, sex konsertar, ballett og óperur. Ópera hans, Þrymskviða, var frumflutt í Þjóðleikhúsinu árið 1974 og er fyrsta íslenska óperan í fullri lengd.
Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar framhaldsnám við Konunglega skoska háskólann í Glasgow og Guildhall School of Music í Lundúnum.
Jón hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1996 og sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til lista og menningar árið 2001.
Árið 1996 varð hann fyrsti prófessor í listgreinum á Íslandi þegar hann var skipaður prófessor í tónlist við Kennaraháskóla Íslands, og árið 2008 veitti skólinn honum doktorsnafnbót í heiðursskyni.
Eiginkona hans, Elísabet Þorgeirsdóttir, lést árið 2013. Jón lætur eftir sig þrjú börn, fjögur barnabörn og eitt barnabarnabarn.

Komment