
Jón Eysteinsson, fyrrverandi sýslumaður í Keflavík, er fallinn frá. Hann var 88 ára gamall en Morgunblaðið greinir frá andláti hans.
Jón fæddist í Reykjavík árið 1937 og voru foreldrar hans Sólveig Guðrún Jóna Eyjólfsdóttir og Eysteinn Jónsson, þáverandi ráðherra.
Eftir að hafa útskrifast sem stúdent frá Menntaskóla á Laugarvatni árið 1957 fór Jón í Háskóla Íslands þar sem hann lærði lögfræði. Árið 1966 fékk hann réttindi sem héraðsdómslögmaður.
Jón starfaði við ýmis störf hjá bæjarfógetum í Keflavík og Kópavogi þar til hann varð sýslumaður árið 1975 og gegndi því starfi til 2007 þegar hann fór á eftirlaun. Hann lét það ekki stoppa sig og sinnti lögmannsstörfum í áratug til viðbótar.
Hann var íþróttagarpur mikill og þótti góður körfuboltamaður og var meðal annars valinn í íslenska landsliðið. Þegar þeim ferli lauk sinnti hann dómgæslu og sat í stjórn KKÍ og var sæmdur gullmerki sambandsins árið 1991.
Jón lætur eftir sig eiginkonu, tvö börn og eitt stjúpbarn.
Komment