
Kólumbía gæti verið næsta skotmark Donalds Trump en forseti Bandaríkjanna varpaði þeirri hugmynd fram í gær þegar hann ræddi við hóp blaðamanna um borð í Air Force One, eftir að hafa vísað til forseta Kólumbíu, Gustavo Petro, sem „sjúks manns“ sem „elski að framleiða kókaín“.
Forsetinn sagði jafnframt að Petro yrði ekki „að þessu mjög lengi“, með vísan til kókaínframleiðslu, sem varð til þess að blaðamaður spurði hvort bandarísk hernaðaraðgerð í Kólumbíu væri möguleg. Trump svaraði því hreint út: „Það hljómar vel fyrir mér.“
Fyrir tveimur vikum hafði Trump þegar hótað Petro í fyrsta sinn og sagt honum að „passa sig“ og kallað hann „ólöglegan fíkniefnaleiðtoga“. Í kjölfar handtöku einræðisherrans í Venesúela, Nicolás Maduro, sagði Petro að hann hefði engar áhyggjur af því að eitthvað svipað gæti komið fyrir hann.
Eins og kunnugt er framkvæmdi bandaríski herinn umfangsmikla aðgerð á laugardagsmorgun þar sem Maduro og eiginkona hans, Cilia Flores, voru handtekin í Caracas í Venesúela. Undir mikilli öryggisgæslu voru þau flutt með flugi til New York-borgar til að mæta fyrir dómstóla þar, eftir að ákæra hafði verið gefin út gegn þeim.
Maduro er ákærður fyrir samsæri um fíkniefnahryðjuverk, samsæri um innflutning kókaíns, ólöglega vörslu vélbyssa og sprengivopna, sem og samsæri um vörslu slíkra vopna.
Eiginkona hans, Flores sætir ákærum meðal annars fyrir samsæri um innflutning kókaíns, vörslu vélbyssa og sprengivopna og samsæri um vörslu slíkra vopna.

Komment