
Heimiliskýr í Austurríki hefur vakið athygli vísindamanna eftir að hún sást nota kúst til að klóra sér, og jafnframt velja markvisst hvaða hluta verkfærisins hún notar eftir því hvaða líkamshluta hún ætlar að klóra. Þetta er í fyrsta sinn sem verkfæranotkun hefur verið skráð hjá nautgripum.
Kýrin, sem heitir Veróníka, er svissnesk brúnkýr (Bos taurus) í eigu bónda og bakara, Witgar Wiegele, í austurrísku Ölpunum. Hann hafði í nær níu ár séð Veróníku taka prik upp með munninum og nota þau til að klóra sér, án nokkurrar þjálfunar. Að lokum sendi hann upptökur til Alice Auersperg, líffræðings við University of Veterinary Medicine Vienna.
„Fólk heldur oft að allt sem dýr gerir með hlut sé verkfæranotkun,“ sagði Auersperg í samtali við Live Science. „En þetta myndband var öðruvísi. Þar sást hegðun sem samræmist ströngustu skilgreiningum á verkfæranotkun, þar sem verkfærið verður í raun framlenging á líkama dýrsins.“
Auersperg og samstarfsmaður hennar, Antonio Osuna-Mascaró, ákváðu að kanna málið nánar. Þau lögðu kúst fyrir Veróníku í mismunandi stöðum og fylgdust með viðbrögðum hennar. Tilgangurinn var að sjá hvort hún skildi virkni mismunandi hluta verkfærisins.
Niðurstöðurnar voru skýrar. Veróníka tók kústinn mun oftar upp á þann hátt að hún notaði burstann, virka endann, til að klóra sér. Eftir um 70 tilraunir kom enn flóknara mynstur í ljós: þegar hún klóraði þykka húð á baki notaði hún grófa burstann af krafti, en þegar hún klóraði viðkvæmari svæði, eins og júgur eða nafla, sneri hún kústskaftinu við og nuddaði sig varlega með mjóu handfanginu.
Hegðunin benti jafnframt til þess að Veróníka vissi fyrirfram hvaða líkamshluta hún ætlaði að klóra. Til dæmis lyfti hún halanum í aðdraganda þess að klóra endaþarmssvæðið og stillti grip sitt á verkfærinu þannig að hún næði betur að markinu.
Rannsóknin sýndi einnig að hún gat endurstillt gripið á kústskaftinu, þrátt fyrir að það væri flókið ferli sem fól í sér að vefja tungunni utan um verkfærið og klemma það milli tanna og harðrar gómplötu.
„Ég hef enga efasemdir um að hér sé um verkfæranotkun að ræða,“ sagði Josep Call, samanburðarsálfræðingur við University of St Andrews, sem kom ekki að rannsókninni. Hann benti á að kýrin notaði mismunandi enda kústsins eftir tilgangi, sem væri sérstaklega sannfærandi.
Sama mat hefur Gloria Sabbatini, dýralíffræðingur hjá National Research Council of Italy. Hún segir hegðunina dæmi um sjálfsmiðaða verkfæranotkun, þar sem dýrið beinir verkfæri að sjálfu sér. Slík notkun sé einfaldari en að nota verkfæri á ytri hluti, þar sem dýrið skynji strax áhrifin og geti leiðrétt notkunina.
Rannsóknin var birt í vísindaritinu Current Biology mánudaginn 19. janúar og er fyrsta staðfesta dæmið um verkfæranotkun hjá nautgripum, auk þess að sýna notkun fjölnota verkfæris.
Vísindamennirnir telja að hegðunin tengist því að Veróníka sé haldin sem gæludýr og búi í umhverfi sem er fjölbreyttara og örvandi en algengt er hjá kúm. Þó telja þeir ólíklegt að þetta sé einstakt tilfelli. Osuna-Mascaró hefur þegar fundið myndbönd á samfélagsmiðlum sem sýna Brahman-naut (Bos indicus) nota prik til að klóra sér.
Að mati rannsakenda bendir þetta til þess að nautgripir búi yfir duldri hæfni til nýsköpunar sem hafi verið til staðar í þúsundir ára, en komi aðeins fram við réttar aðstæður.
„Við erum ekki að segja að fornir uxar hafi verið verkfæranotendur,“ sagði Auersperg. „Heldur að þessi dýr hafi getu til að finna sjálfstæðar lausnir á flóknum vandamálum, ef þau fá nægilega ríkt og örvandi umhverfi.“

Komment