
Formleg afhjúpun á nýju bókmenntaverki við Tollhúsið á Tryggvagötu 19 fór fram í dag klukkan 14. Verkið er hluti af áframhaldandi viðleitni Reykjavíkur sem Bókmenntaborgar UNESCO til að gera bókmenntasöguna sýnilega í borgarrýminu.
Frá því að Reykjavík hlaut titilinn Bókmenntaborg UNESCO árið 2011 hefur borgin unnið markvisst að því að tengja bókmenntir og borgarlandslag með ýmsum skilti- og textaverkum. Bókmenntastandar, merkingar og tilvísanir í ritverk eru nú víða í borginni og bjóða íbúum og gestum að kynnast tengslum skáldskapar og umhverfis.
Undanfarin ár hefur Bókmenntaborgin, í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið, sett bókmenntatexta niður í götur, gangstéttar og opin rými. Markmiðið hefur verið að minna á bókmenntahefð borgarinnar, heiðra höfundana, efla vitund um íslenska tungu og skapa mannvænt borgarumhverfi í samræmi við stöðu Reykjavíkur innan UNESCO-netkerfisins.
Nýjasta viðbót verkefnisins er ljóð eftir Sigurð Pálsson (1948–2017), sem hefur nú verið sett niður við Tollhúsið. Í ljóðum Sigurðar má jafnan finna næma sýn á borgarlíf, hreyfingu og samspil minninga og framtíðar í borgarrýminu. Sigurður var jafnframt virkur þátttakandi í menningarlífi Reykjavíkur og hafði áhrif á borgina bæði í listsköpun sinni og opinberri umræðu.
Við afhjúpunina í dag flutti Skúli Helgason, formaður menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkurborgar, ávarp. Ragnar Helgi Ólafsson rithöfundur ræddi gildi Sigurðar sem Reykjavíkurskálds og las upp ljóð hans. Þá var Kristín Jóhannesdóttir, leikstjóri og ekkja Sigurðar, viðstödd athöfnina.

Komment