
Lögreglan í Brasilíu greindi frá því í dag að hún hefði handtekið tvo einstaklinga í tengslum við áætlun um framkvæmda sprengjuárás á fjölmennum tónleikum Lady Gaga í Rio de Janeiro.
Lögreglan í Rio sagði að „í samstarfi við dómsmálaráðuneytið“ hefði henni tekist að „koma í veg fyrir sprengjuárás sem átti að eiga sér stað á tónleikum Lady Gaga í Copacabana“ sem áttu sér stað í gær.
Á samfélagsmiðlinum Twitter sagði lögreglan í Rio að hún hefði handtekið fullorðinn einstakling sem var „ábyrgur fyrir áætluninni“ auk unglings, í aðgerð sem bar nafnið „Fake Monster“ sem er vísun í gælunafn bandarísku söngkonunnar fyrir aðdáendur sína. Það nafn mun vera „Little Monsters.“
Lögreglan sagði að hópurinn hefði reynt að fá fólk með sér á netinu til að „framkvæma árásir með sprengiefnum og Molotov-kokteilum“ sem hluta af „sameiginlegri áskorun með það að markmiði að öðlast frægð á samfélagsmiðlum.“
Lögreglan bætti við að hópurinn sem stóð að áætluninni „dreifði hatursorðræðu,“ á netinu. Hún framkvæmdi húsleitir víðs vegar um ríkið Rio de Janeiro vegna málsins og einnig í ríkjunum São Paulo, Rio Grande do Sul og Mato Grosso.
Tónleikar Lady Gaga voru aðrir fjölmennu tónleikarnir á Copacabana-ströndinni á síðustu 12 mánuðum, eftir stóra tónleika Madonna á síðasta ári.
Komment