
Ástralska lögregla rannsakar nú hvort 19 ára gömul kona frá Kanada, sem fannst látin á strönd í norðurhluta Queensland, hafi drukknað eða orðið fyrir árás hóps dingóa, villtra hunda sem eru landlægir í Ástralíu.
Að sögn lögreglu fannst konan í gær eftir að hún hafði sagt vinum sínum að hún hygðist fara í sjóinn á K'Gari, eyju undan strönd Queensland.
„Á þessu stigi er of snemmt að staðfesta hvernig unga konan lét lífið. Við erum að kanna alla möguleika,“ sagði Paul Algie, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Queensland, á blaðamannafundi. Hann gaf engar upplýsingar um deili konunnar.
Algie sagði jafnframt að vegfarendur á ströndinni hefðu tekið eftir hópi dingóa og brugðist skjótt við.
„Fólk sem var á ferð niður ströndina tók eftir hópi dingóa, og hrakti þá í burtu og fann lík ungu konunnar,“ bætti hann við.
Dingóar ganga frjálsir um eyjuna og hafa orðið djarfari í samskiptum við menn vegna aukinnar nálægðar, að sögn umhverfisráðuneytis Queensland. Villtu hundarnir geta valdið meiðslum og í undantekningartilvikum bana, einkum börnum.
Reuters sagði frá málinu.

Komment