
Nítján ára mótorhjólaáhrifavaldurinn Diana Bahador, hefur verið skotin til bana í Íran, á sama tíma og íranskar öryggissveitir halda áfram grimmilegri atlögu sinni gegn mótmælendum sem mótmæla stjórnvöldum í landinu.
Atburðurinn átti sér stað á meðan íranska byltingarvarðasveitin (IRGC) heldur áfram að berja niður mótmæli gegn stjórn æðsta leiðtogans, Ayatollah Ali Khamenei.
Samkvæmt fréttum var Diana Bahador skotin tvisvar í borginni Gorgan um miðnætti þann 8. janúar, þar sem hún tók þátt í mótmælum gegn stjórn Ayatollahs.
Diana, sem var þekkt á samfélagsmiðlum undir nafninu „Baby Rider“, naut mikilla vinsælda og hafði yfir 150 þúsund fylgjendur.
Í upphafi var tilkynnt um andlát hennar í Instagram-sögu þar sem því var haldið fram að hún hefði látist í mótorhjólaslysi. Í yfirlýsingunni var fylgjendum hennar jafnframt bent á að forðast getgátur um dánarorsökina.
Mannréttindasamtök segja hins vegar að fjölskylda hennar hafi verið neydd til að birta þessa yfirlýsingu sem hluta af samkomulagi við írönsk stjórnvöld.
Heimildarmaður náinn fjölskyldunni segir að yfirvöld hafi samþykkt að skila líki Dianu gegn því skilyrði að fjölskyldan neitaði því opinberlega að hún hefði verið tekin af lífi.
Mannréttindasamtökin Hyrcani Human Rights segja að líki hennar hafi verið skilað til fjölskyldunnar tveimur dögum síðar.
Íranskir ríkisfjölmiðlar hafa dregið dánarorsökina í efa og fullyrt að raunverulegt nafn hennar hafi verið Shahrzad Mokhami, auk þess sem þeir halda því fram að hún hafi látist 22. janúar í mótorhjólaslysi.
Á Instagram birti Diana gjarnan myndbönd þar sem hún framkvæmdi mótorhjólabrellur án höfuðslæðu, hvort tveggja athafnir sem eru ólöglegar fyrir konur í Íran.
Síðasta færsla hennar, frá 6. janúar, sýnir hana í mótorhjólagalla dansandi og aka mótorhjóli.
Mótmæli gegn stjórnvöldum hafa breiðst út um Íran frá 28. desember, eftir hrun íranska gjaldmiðilsins, rial, og hafa þróast í víðtæk mótmæli gegn stjórn Ayatollahs.
Yfirvöld hafa brugðist við með harðri valdbeitingu.
Samkvæmt stjórnvöldum í Íran hafa yfir þrjúþúsund látist í mótmælunum en samkvæmt nýjum rannsóknum gætu yfir 33 þúsund mótmælendur hafa verið drepnir á aðeins tveimur vikum, og meira en 98 þúsund særst.

Komment