
Athafnamaðurinn og bakarinn Jói Fel er risinn aftur eftir gjaldþrot og fleiri raunir. Hann er nýtrúlofaður og fluttur til Hveragerðis í „mjög töff einbýlishús“, eins og sjónvarpskonan Vala Matt lýsir því, en hún birtir í kvöld viðtal við hann á Stöð 2.
Jói Fel varð gjaldþrota árið 2023. Árið 2020 hafði bakarískeðja hans farið í gjaldþrot, eftir beiðni Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Síðar sagðist hann hafa orðið fyrir létti við gjaldþrotið. „Því miður voru skuldir orðnar of háar, launin of há, kostnaðurinn of hár,“ sagði hann.
Heimili hans, einbýli við Markarflöt í Garðabæ, var sett á uppboð skömmu síðar, en hann hafði flutt þangað árið áður og sýnt í Smartlandinu.
Eftir gjaldþrot bakarísrekstursins reyndi Jói að kaupa aftur eignirnar, en það var keppinauturinn, Bakarameistarinn, sem keypti eignirnar úr þrotabúinu. Samtals fengust 117 milljónir upp í tæplega 201 milljónar kröfur sem lýst var í búið
Árið 2022 fór kærasta Jóa með hann í skyndi á bráðamótttöku þar sem hann gekkst undir hjartaþræðingu. Hann vann þá að opnun veitingastaðarins Felino og sagðist vera kominn á nýjan stað í lífinu. Á endanum lokaði Felino árið 2024, að sögn Jóa vegna hækkandi hráefnisverðs þótt það væri „troðið út úr dyrum“, eins og hann lýsti því. Eftir það stefndi Jói að opnun „lifandi uppskriftabókar“.
Jói Fel skildi árið 2017 eftir 20 ára hjónaband. Fyrrverandi eiginkona hans lýsti því síðar í viðtali hvernig hún notaði hugvíkkandi efni til að komast yfir skilnaðinn. „Það að stíga samtímis út úr hjónabandi sínu og einnig út úr fyrirtækinu sínu, sem hafði verið ástríða manns og lifibrauð í þetta langan tíma, var bara mjög stórt,“ sagði hún.
Nú eru nýjustu áform Jóa Fel orðin að veruleika. Lifandi uppskriftabók á netinu hefur litið dagsins ljós, eldabaka.is. Þar birtir hann uppskriftir og myndbönd af sér við matreiðslu og sparar ekki að flagga einkennismerki sínu, upphandleggsvöðvunum, samhliða ráðleggingum um heilsusamlegt fæði.
Hann bað kærustu sinnar, Kristínar Evu Sveinsdóttur, á Miami-ströndinni í Flórída í Bandaríkjunum í ágúst síðastliðnum. Það er einmitt Kristín Eva sem er skráður eigandi einkahlutafélagsins sem heldur utan um nýjan rekstur Jóa Fel.
Komment