
Tónlistarmaðurinn Patrik Snær Atlason, betur þekktur sem Prettyboitjokkó, og kærasta hans, Friðþóra Sigurjónsdóttir pílateskennari, hafa eignast rúmgott 236 fermetra einbýlishús í Áslandshverfi í Hafnarfirði. Seljendur voru móðursystir Patriks, Rut Helgadóttir, og eiginmaður hennar, Jóhann Ögri Elvarsson.

Samkvæmt Vísi fór húsið ekki á almenna sölu en þegar það var auglýst í fyrra var það ásett á 199 milljónir króna. Samkvæmt sömu heimildum greiddi parið lægra kaupverð en það.
Parið setti íbúð sína við Svöluás í sama hverfi á sölu nýverið og eru þau nú að undirbúa flutninga. Þau fá afhent nýja húsið í næstu viku.
Húsið, sem byggt var árið 2002, stendur á tveimur hæðum með 43 fermetra bílskúr. Það státar af góðri lofthæð, einstöku útsýni og stórum, skjólgóðum garði.
Á efri hæðinni eru eldhús, borðstofa og stofa í opnu og björtu rými með gólfsíðum gluggum og útgengi á rúmgóðar svalir til suðvesturs. Eldhúsið er með dökkri eikarinnréttingu upp í loft og stórri eldhúseyju með steinborðum og góðu vinnuplássi. Á gólfum eru dökkar flísar.
Í húsinu eru alls fjögur svefnherbergi og tvö baðherbergi.
Komment