
Prís var með lægsta kílóverðið á bæði úrbeinuðu hangilæri og hamborgarhrygg með beini samkvæmt nýrri verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ á jólakjöti. Könnunin var gerð í síðustu viku og náði til 61 algengra jólavara í átta verslunum.
Lægsta kílóverð á hamborgarhryggi með beini reyndist 1.698 krónur í Prís en samsvarandi vörur í Bónus og Krónunni voru um 100 krónum dýrari. Verðmunur á hamborgarhryggi reyndist mikill, allt frá 1.698 krónum upp í 2.899 krónur á kílóið, þar sem Hagkaup voru dýrust.
Verðlagseftirlitið bendir á að vöruúrval sé mismunandi milli verslana og vinsælar vörur ekki endilega fáanlegar alls staðar. Neytendum er því bent á að bera saman verð, meðal annars með Nappinu eða vöruleit á verdlagseftirlit.is.
Áframhaldandi verðmunur milli Prís og Bónus
Frá opnun Prís í ágúst í fyrra hefur Bónus verið að meðaltali um 5% dýrara en Prís þegar bornar eru saman vörur sem fást í báðum verslunum. Sá munur sést einnig í jólakjötinu. Ódýrasti hamborgarhryggurinn í Bónus var til dæmis 5,9% dýrari en sambærileg vara í Prís.
Verðmunur milli Bónus og Krónunnar er hins vegar oft aðeins ein króna, líkt og verðlagseftirlitið hefur áður bent á.
Hangikjöt ódýrast í Prís
Lægsta verð á úrbeinuðu hangilæri var einnig í Prís, 4.899 krónur á kíló. Í Bónus kostaði ódýrasta hangilærið 4.989 krónur og í Krónunni 4.999 krónur. Hangilæri með beini var almennt ódýrara, þar sem lægsta kílóverðið mældist 3.598 krónur í Bónus.
Léttreyktur lambahryggur var ódýrastur í Prís og þar gat verðmunur milli verslana numið allt að 19%. Hálfur léttreyktur hryggur kostaði þar 4.875 krónur á kíló en allt að 5.799 krónur í Hagkaupum.
Lítill munur á kalkúni
Minni verðmunur var á kalkúni. Kalkúnn frá Reykjabúinu var ódýrastur í Prís á 2.298 krónur á kíló og var einnig fáanlegur á undir 2.400 krónum í Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum. Hæsta verðið fannst í Nettó og Hagkaupum, 2.499 krónur á kíló.
Samkvæmt verðlagseftirlitinu hefur verð á kjötvöru hækkað um 6,6% milli ára að jafnaði og lambakjöt um 8,6%, samanborið við 4% hækkun á dagvöru almennt. Dæmi eru um 4–6% hækkun á vinsælum jólakjötsvörum og allt að 21% hækkun á sumum kalkúnavörum.
Verðlagseftirlit ASÍ áréttar að könnunin sé eingöngu beinn verðsamanburður en ekki mat á gæðum eða þjónustu og bendir neytendum á að fylgjast vel með tilboðum þar sem verðbreytingar eru tíðar á þessum árstíma.

Komment