
Ragnar Tómasson, lögfræðingur og áhugamaður um hestaíþróttir, lést þann 28. september á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 86 ára að aldri. Mbl.is sagði frá andlátinu.
Ragnar fæddist í Reykjavík 30. janúar 1939 en foreldrar hans voru þau Tómas Pétursson stórkaupmaður og Ragnheiður Einarsdóttir, fyrrverandi formaður Hringsins. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1959 og embættisprófi í lögfræði árið 1965, auk þess sem hann stundaði nám við Business School við Kaliforníuháskóla árið 1966. Sama ár stofnaði hann málflutningsskrifstofu í Reykjavík og hóf síðar rekstur Fasteignaþjónustunnar, þar sem hann starfaði við sölu fyrirtækja og ráðgjöf í tengslum við samruna og eignarskipti.
Ragnar og eiginkona hans, Dagný Ólafía Gísladóttir, sem lést árið 2016, ráku fjölbreyttan rekstur saman. Þau áttu sokkaverksmiðju, fluttu inn Polaroid-filmur og -myndavélar, innréttingar og baðtæki og stýrðu skyndibitastaðnum Jarlinn ásamt fjölskyldu sinni.
Ragnar var ástríðufullur hestamaður og sinnti ýmsum félagsstörfum í íþróttaheiminum allt frá árinu 1972. Hann var meðal annars formaður íþróttadeildar Fáks, sat í stjórn íþróttaráðs Landssambands hestamanna og var liðsstjóri íslenska landsliðsins á Evrópumóti í hestaíþróttum í Svíþjóð árið 1985. Hann starfaði einnig sem dómari í hestaíþróttum og tók þátt í skipulagningu unglingastarfs í nokkrum hestamannafélögum.
Ragnar var virkur í ÍFA, Íþrótta fyrir alla, og hóf baráttu fyrir eflingu líkamsræktar með maraþonhlaupi árið 1990. Hann var einnig hvatamaður og ráðgjafi við gerð þáttanna Hristu af þér slenið sem sýndir voru á RÚV árið 1991 og gaf út bók með sama nafni tveimur árum síðar. Auk þess skrifaði hann fjölda greina í hestatímaritið Eiðfaxa.
Börn Ragnars eru Ragna Þóra (f. 1964), Tómas (f. 1965, d. 2010), Dagný Ólafía (f. 1968) og Arnar Þór (f. 1972). Hann á 12 barnabörn og 14 langömmubörn.
Útför Ragnars fer fram frá Grafarvogskirkju fimmtudaginn 16. október klukkan 13.
Komment