
Rannsókn hefur verið hafin eftir að um 70 manns létust í grimmilegum „aftökum á hafi úti“ þegar þau reyndu að ná til Kanaríeyja.
Samkvæmt fréttum voru sum þeirra myrt og líkunum hent í Atlantshafið. Eftirlifendur segja að nokkrir hafi verið skotnir eftir að báturinn varð fyrir vélarbilun og hafi auk þess verið yfirhlaðinn.
Spænska fréttaveitan Okdiario greinir frá því að 20 til 30 flóttamenn séu til rannsóknar, grunaðir um að hafa framið morðin. Þeir eru sagðir vistaðir í flóttamannamiðstöðvum um þessar mundir. Fréttir herma að fórnarlömbin hafi fyrst verið sökuð um að stela vatni og síðar um galdra þegar birgðir um borð fóru að þverra.
Einnig er haft eftir eftirlifendum að nokkrir hafi dáið úr þorsta og hungri, á meðan aðrir köstuðu sér sjálfir fyrir borð eftir að hafa orðið vitstola af völdum ofþornunar. Ekki liggur fyrir hvort konur eða börn séu meðal fórnarlamba.
Spænska strandgæslan bjargaði um 250 manns af bátnum vestur af borginni Dakhla í Vestur-Sahara, um 426 kílómetra frá Kanaríeyjum, eftir að flutningaskip sem fór hjá sendi út neyðarkall þann 24. ágúst.
Samkvæmt yfirvöldum greindu eftirlifendur frá því þegar þeim var komið í land í Arguineguin á suðurströnd Gran Canaria 25. ágúst að um 320 manns hefðu lagt af stað í ferðina áður en vandræði komu upp á hafi úti.
Í júní staðfesti spænska lögreglan að hún hefði hafið rannsókn eftir að lík fimm flóttamanna fundust í sjónum við Balear-eyjar, bundin á höndum og fótum.
Fyrstu vangaveltur snerust um hvort þeir hefðu verið myrtir og hent í sjóinn. Ættingjar hinna látnu, sem allir voru frá Sómalíu, sögðu síðar að þeir hefðu verið fjötraðir í dauðaritúali eftir að þeir létust úr hungri á leiðinni til Evrópu.
Þeir höfðu verið á báti sem spænska strandgæslan bjargaði 8. maí, 100 kílómetra frá Alicante, með 16 karlmönnum sem allir glímdu við ofþornun og önnur heilsufarsvandamál, auk eins látins manns um borð. Báturinn hafði lagt út frá Alsír tveimur vikum fyrr en varð vélarvana og rak stjórnlaus.
Á ferðinni voru þeir neyddir til að lifa á einni döðlu á dag og drekka eigin þvag. Þeir sem létust höfðu reynt að drekka sjó til að halda lífi en dóu af völdum þess. Rauði krossinn sagði eftir björgunina:
„Einn þeirra sem bjargað var hafði étið tannkrem, því það var það eina sem hann hafði. Hann vildi ekki sleppa túpunni þegar hann komst í land.“
Komment