
Samtökin No Borders Iceland segja fullyrðingar Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra, rangar í máli rússneskrar fjölskyldu sem nýlega var vísað úr landi. Í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í gærkvöldi eru taldar upp fimm ástæður fyrir því að ummæli ráðherrans, sem birtust í frétt á Vísi í gær, standist ekki.
Í samtali við Vísi sagði Þorbjörg Sigríður meðal annars: „Þar [Í Króatíu] þykir málsmeðferð vönduð lagalega og uppfylla skilyrði sem gerð eru samkvæmt mannréttindasáttmálum og það er af þeirri ástæðu sem útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála fara í það á grundvelli Dyflinnarreglugerðar að senda málið þangað þar sem það fær sína málsmeðferð.“
Í tilkynningunni segir að mannréttindasamtök í Króatíu hafi þegar greint frá því að fjölskyldan hafi sætt „ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð“ í varðhaldi þar í landi í desember 2024. No Borders Iceland bendir á að slíkar upplýsingar stangist beint á við þá mynd sem ráðherra hafi dregið upp af málinu.
Samtökin gagnrýna einnig harðlega að alvarlega veik móðir hafi verið skilin eftir ein með umsjá þriggja barna, þar á meðal nýfæddra tvíbura, á meðan eiginmaður hennar og barnsföður var haldið í lokuðu brottfararúrræði. Slík meðferð geti að þeirra mati með engu móti talist mannúðleg.
Þá kemur fram að fjölskyldufaðirinn hafi verið beittur hótunum um líkamsmeiðingar í varðhaldi í Króatíu, meðal annars af hálfu fulltrúa öryggisþjónustu stjórnvalda. Samkvæmt tilkynningunni var ástandið í varðhaldinu svo alvarlegt að 55 einstaklingar frá Norður-Kákasussvæðinu hófu hungurverkfall til að mótmæla meðferðinni.
No Borders Iceland varar einnig við því að fjölskyldan eigi litla sem enga möguleika á að fá alþjóðlega vernd í Króatíu. Amnesty International hafi fordæmt stjórnvöld þar í landi fyrir ómannúðlega meðferð á rússneskum umsækjendum um vernd og tölur úr AIDA-gagnagrunninum bendi til þess að enginn rússneskur ríkisborgari hafi fengið vernd í Króatíu árið 2024, ári áður hafi 8.000 Rússar sótt um hæli þar í landi en aðeins 23 fengið vernd. Samtökin telja því yfirvofandi hættu á að fjölskyldan verði að lokum send aftur til Rússlands.
Að lokum segir í tilkynningunni að Útlendingastofnun hafi þegar verið „gerð afturreka um lygar“ í máli fjölskyldunnar. Vísað er til yfirlýsingar á vef island.is frá 7. október 2025 sem samtökin segja að hafi innihaldið rangar fullyrðingar, sem síðar hafi verið afsannaðar. Þrátt fyrir að nú liggi fyrir gögn um ómannúðlega meðferð í Króatíu, segjast samtökin undrast að dómsmálaráðherra haldi áfram að hafna þeirri gagnrýni.
„Þrátt fyrir að þær upplýsingar liggi fyrir virðist Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir standa keik í afneitun sinni.“

Komment