
Aðildarríki Evrópusambandsins bera skyldu til að viðurkenna hjónabönd samkynhneigðra ríkisborgara ESB sem hafa verið stofnuð með löglegum hætti í öðru aðildarríki, þar sem hjónin njóta réttar til frjálsrar farar og búsetu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Evrópudómstólnum.
Málið vakti athygli þegar tveir pólskir ríkisborgarar af sama kyni gengu í hjónaband í Berlín árið 2018. Pólsk yfirvöld neituðu síðar að skrá hjúskaparvottorð þeirra í þjóðskrá, þar sem hjónabönd samkynhneigðra eru ekki leyfð samkvæmt pólskum lögum.
Evrópudómstóllinn taldi að synjunin bryti gegn „frelsi einstaklingsins og rétti hans til virðingar fyrir einkalífi og fjölskyldulífi“.
Dómstóllinn áréttar að aðildarríki séu skuldbundin til að viðurkenna hjónabönd sem eru löglega gild í öðrum ESB-ríkjum. Skuldbindingin felur þó ekki í sér að einstök lönd þurfi að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra innanlands.
Málið var tekið fyrir hjá æðsta stjórnsýsludómstól Póllands, sem óskaði álits Evrópudómstólsins vegna vafa um hvort hjónabandið ætti að viðurkenna og hvort synjun pólskra yfirvalda bryti gegn lögum ESB.
Evrópudómstóllinn ítrekar að aðildarríki séu skuldbundin til að framfylgja reglum Evrópusambandsins.
Ekki brot á þjóðarvitund eða allsherjarreglu
Dómstóllinn segir að hjón eigi að geta treyst því að hjúskapur þeirra sé áfram viðurkenndur þegar þau snúa aftur heim, enda gæti annars skapast „alvarlegur miski, bæði varðandi stjórnsýslu, atvinnu og einkalíf,“ þar sem þau yrðu þvinguð til að lifa sem ógift í heimalandi sínu.
Þá telur dómstóllinn að úrskurðurinn brjóti hvorki gegn þjóðarvitund né ógni allsherjarreglu ríkisins.
Aðildarríkin geti valið með hvaða hætti þau viðurkenna erlend hjónabönd, og skráning hjúskaparvottorðs sé aðeins ein leið til þess.
Hins vegar megi ekki mismuna samkynhneigðum og gagnkynhneigðum hjónum, segir í tilkynningu dómstólsins.
Samkvæmt pólskum lögum er skráning eina leiðin til viðurkenningar hjúskapar sem stofnaður er í öðru aðildarríki, og því beri pólskum yfirvöldum að viðurkenna slíka hjónabandsstöðu, að því er Evrópudómstóllinn segir.

Komment