
Tanja Fajon, utanríkisráðherra Slóveníu, greindi frá því að landið hafi samþykkt að setja öfgahægri ráðherra Ísraels, Itamar Ben-Gvir öryggisráðherra og Bezalel Smotrich fjármálaráðherra, á svartan lista.
Að sögn Fajon er markmið aðgerðarinnar að setja „þrýsting á ísraelsku ríkisstjórnina til að bæta óásættanlegar aðstæður á Gaza og binda enda á þjáningar óbreyttra borgara“.
Ben-Gvir og Smotrich, sem eru í ríkisstjórn Benjamíns Netanyahu forsætisráðherra, búa báðir í ólöglegum landtökubyggðum Ísraela á hertekna Vesturbakkanum og hafa hvatt til þess að svæðið verði formlega innlimað.
Frá upphafi stríðsins á Gaza hafa ráðherrarnir kallað eftir því að Ísrael þjóðernishreinsi svæðið og stöðvi alla aðstoð við Palestínumenn. Þeir hafa jafnframt hótað að yfirgefa stjórnarsamstarfið ef stríðinu lýkur.
Aðgerðir Slóveníu fela í sér að ráðherrunum verður bannað að koma til landsins, sem stjórnvöld segja vera fordæmalaust innan Evrópusambandsins.
Stjórnin sakaði jafnframt Ben-Gvir og Smotrich um að hvetja til „ofbeldis og alvarlegra mannréttindabrota gegn Palestínumönnum“ með „útrýmingarhvetjandi yfirlýsingum sínum“.
Al Jazeera fjallaði um málið.
Komment