
Stefán G. Jónsson, eðlisfræðingur og kennari, andaðist 15. september síðastliðinn á heimili sínu í faðmi fjölskyldu sinnar eftir stutta en harða baráttu við krabbamein. Hann var 76 ára gamall. Akureyri.net sagði frá andlátinu.
Stefán fæddist 3. október 1948 á Munkaþverá í Öngulstaðahreppi (nú Eyjafjarðarsveit), sonur þeirra Jóns Kristins Stefánssonar og Önnu Aðalheiðar Guðmundsdóttur. Frá unga aldri var hann bæði talnaglöggur og fróðleiksfús og minntist hann ætíð með hlýju á barnaskólaárin í sveitinni, sem reyndust honum traustur grunnur í námi og starfi.
Hann lauk landsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1964 og stúdentsprófi þaðan 1968. Árið 1965 dvaldi hann sem skiptinemi í New York-ríki í Bandaríkjunum hjá Burns-fjölskyldunni, sem hann átti ævilangt vinasamband við. Eftir stutt nám í verkfræði við Háskóla Íslands hélt hann til Svíþjóðar, lauk cand. fil. prófi í stærðfræði og eðlisfræði frá Uppsölum 1972 og doktorsprófi í kjarneðlisfræði frá Lundi 1983.
Stefán hóf störf sem kennari við Menntaskólann á Akureyri 1972 og kenndi stærðfræði og eðlisfræði með hléum allt til starfsloka 2016. Hann var einn höfunda viðamikils kennslubókaflokks í stærðfræði sem hefur verið notaður víða í framhaldsskólum. Hann var meðal fyrstu starfsmanna Háskólans á Akureyri við stofnun hans 1987, forstöðumaður rekstrardeildar og síðar dósent við kennaradeild. Hann gegndi einnig stundakennslu við Háskólann í Lundi, Háskólann í Reykjavík og MH, og starfaði um tíma hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Stefán var mikill fjölskyldumaður. Hann kynntist eiginkonu sinni, Sigríði Sigurbjörgu Jónsdóttur, sumarið 1973, trúlofaðist henni stuttu síðar og gekk börnum hennar í föðurstað. Saman eignuðust þau þrjá syni. Í dag á fjölskyldan sextán barnabörn og ellefu barnabarnabörn. Fram kemur í umfjöllun Akureyri.net að heimili þeirra í Kringlumýri á Akureyri hafi verið líflegur samastaður fjölskyldunnar um árabil og þótti Stefáni afar þungt þegar það eyðilagðist í eldsvoða 1987. Með hjálp vina og ættingja tókst að endurreisa það og héldu þau hjón áfram að búa þar. Síðar fluttu þau í Holtateig þar sem Stefán bjó til æviloka. Hann hjúkraði Sigríði af ást og natni þegar hún veiktist árið 2016 og missti hana tveimur árum síðar, sem var honum mikið áfall.
Stefán var víðsýnn, menningarunnandi og hafði brennandi áhuga á skák, sem hann hóf að iðka á ný á síðustu árum með Skákfélagi Akureyrar. Hann var ættrækinn og hélt góðu sambandi við vini og frændgarð, sem studdu hann af mikilli hlýju og nærveru á síðustu dögum hans.
Komment