
Stefán Pálsson, sagnfræðingur, greinir frá því í Facebook-færslu að í gangi sé það sem hann kallar mikilvæga rannsókn á áhrifum áfengra drykkja á kvefpestir, sem gæti að hans sögn haft víðtæk áhrif á heilbrigðiskerfið og lýðheilsu.
„Hér í Eskihlíðinni fer fram mikilvæg empirísk athugun sem kann að hafa mikil áhrif fyrir heilbrigðiskerfið og þróun lýðheilsumála,“ skrifar Stefán í upphafi færslunnar.
Hann segir bæði sig og Steinunni, eiginkonu sína, vera veik.
„Við Steinunn erum bæði drullukvefuð.“
Stefán rifjar upp atvik sem átti sér stað um helgina, þegar hann sótti afmæli Sameykis.
„Ég var líka kvefaður á laugardaginn á afmæli St.Rv. Þar hitti ég söng- og útvarpskonuna Guðrúnu Gunnarsdóttur sem skipaði mér að drekka viský.“
Að sögn Stefáns taldi hann ábendinguna trúverðuga í ljósi reynslu atvinnusöngvara.
„Nú eru atvinnusöngvarar með svarta beltið í að kljást við kvefpestir svo ég freistaðist til að trúa þessu, en spurði hvort koníak væri ekki talið gera sama gagn?“
Svar Guðrúnar hafi verið afdráttarlaust.
„Það sagði hún ekki vera. Allir söngvarar væru sammála um lækningamátt viskýsins... nema Björgvin Halldórsson, hann veðjaði á koníak.“
Í færslunni greinir Stefán frá því að skiptar skoðanir séu á heimilinu um hvaða meðferð sé árangursríkari.
„Og núna er ég team-Guðrún og Steinunn er team-Bó.“
Að lokum lofar hann að upplýsa almenning um niðurstöður rannsóknarinnar.
„Við látum ykkur vita niðurstöðuna úr þessari hávísindalegu tilraun.“

Komment