Bandaríska leikkonan Sydney Sweeney vakti athygli á mánudagskvöld þegar hún hengdi fjölda brjóstahaldara á hið heimsþekkta Hollywood-skilti í skjóli nætur. Að sögn Los Angeles Times var gjörningurinn hluti af kynningu á nýju nærfatamerki Sweeney, en framkvæmdin var ekki heimiluð af þeim aðilum sem fara með umsjón skiltisins.
Sweeney birti myndband af atburðinum á Instagram, þar sem sjá má hana og lítið teymi pakka sendibíl fullum af undirfötum áður en haldið er upp í Hollywood Hills. Á staðnum sést hún binda brjóstahaldara saman og leggja þá yfir stafi skiltisins.
Lögreglan í Los Angeles sagði blaðinu að engin lögregluskýrsla vegna meints ólöglegs aðgangs hefði enn verið lögð fram en samkvæmt eigendum þess fékk Sweeney ekki leyfi til að gera þetta.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sweeney lendir í deilum vegna auglýsingaherferðar. Í fyrra varð hún fyrir mikilli gagnrýni fyrir að taka þátt í auglýsingaherferð American Eagle en þar sat hún fyrir í gallabuxum með slagorðinu „Sydney Sweeney Has Great Jeans “ en orðið „jeans“ [ísl. gallabuxur] svipar til orðsins „genes“ [ísl. gen] og er orðaleikurinn eftir því en leikkonan hefur verið talin ein sú myndarlegasta í dag. Töldu sumir auglýsingin setja hvítt fólk á hærri stall en aðra kynþætti.


Komment