
Fjölmiðlafélagið Sýn, sem rekur meðal annars Vísi.is, Stöð 2 og Bylgjuna, hefur tilkynnt Kauphöllinni um að nýr stjórnarmaður bætist við fimm manna stjórn félagsins á föstudag. Nýi stjórnarmaðurinn, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, gegnir um leið því hlutverki að vera í hagsmunagæslu fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Fjórir af tíu stærstu hluthöfum Sýnar eru lífeyrissjóðir, en sömuleiðis eru stóru viðskiptabankarnir þrír allir meðal 15 stærstu hluthafa.
Þrátt fyrir að hagsmunagæsluaðili sjávarútvegsins sé í stjórn Sýnar er ekki þar með sagt að viðkomandi geti haft áhrif á umfjallanir fjölmiðla félagsins. Ritstjóri fréttastofu Sýnar, Erla Björg Gunnarsdóttir, heyrir hins vegar beint undir forstjóra Sýnar, Herdísi Dröfn Fjeldsted, sem er ráðin af stjórn félagsins.
Stjórn Sýnar
Aðalstjórn
- Hákon Stefánsson
- Heiðrún Lind Marteinsdóttir
- Páll Gíslason
- Petrea Ingileif Guðmundsdóttir
- Ragnar Páll Dyer
Varastjórn
- Daði Kristjánsson
- Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir

Ekki mun þurfa að kjósa um stjórn félagsins, þar sem aðeins fimm frambjóðendur eru til stjórnar. Sömuleiðis fengust ekki þrjú framboð í tilnefningarnefnd stjórnar.
Gengi Sýnar í Kauphöllinni hefur fallið um 47% síðasta árið og um 31% á yfirstandandi ári.
Sýn sendi frá sér afkomuviðvörun 10. febrúar síðastliðinn vegna versnandi horfa.