
Þórður S. Gunnarsson, fyrrverandi forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi héraðsdómari, er látinn, 77 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 17. janúar síðastliðinn eftir stutt veikindi, samkvæmt mbl.is.
Þórður fæddist í Reykjavík 23. janúar 1948 og ólst upp víða í borginni, meðal annars í Norðurmýrinni, Laugarásnum og síðar við Bergstaðastræti. Kjörforeldrar hans voru Ágúst Ólafsson, rafverktaki í Reykjavík, og Bjarnfríður Sigurjónsdóttir, húsfreyja. Líffræðilegir foreldrar hans voru Gunnar Óskarsson, móttökustjóri, og fyrri eiginkona hans, Guðríður Pétursdóttir, húsfreyja.
Þórður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1969 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1975. Hann stundaði framhaldsnám við Oslóarháskóla árið 1981 á sviði löggjafar um óréttmæta viðskiptahætti og samkeppnishömlur. Hann hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1977, varð hæstaréttarlögmaður árið 1982 og fékk leyfi til verðbréfamiðlunar árið 1993. Auk þess sótti hann fjölmörg námskeið í lögfræði, bæði innanlands og erlendis.
Á árunum 1975 til 2002 starfaði Þórður við fjölbreytt lögmannsstörf, bæði í eigin rekstri og sem meðeigandi á lögmannsstofum. Hann var virkur í opinberri umræðu um lögfræðileg málefni, skrifaði fasta pistla í Vísi á árunum 1981–1982 og fjölda greina í dagblöð, tímarit og fagrit. Þá var hann vinsæll fyrirlesari á sínu sviði.
Þórður gegndi jafnframt fjölmörgum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum. Hann var meðal annars formaður stjórnar Olís, sat í stjórn Vátryggingafélags Íslands hf. og stýrði siðanefnd landsnefndar Alþjóðaverslunarráðsins um markaðsstarfsemi. Þá átti hann sæti í stjórn Ísaga ehf. og Lögmannafélags Íslands, auk þess sem hann starfaði í ýmsum opinberum nefndum vegna reglugerðarsetningar, lagafrumvarpa og í dómnefndum.
Stærsta framlag Þórðar til íslensks samfélags var þó á sviði lagamenntunar. Hann kenndi fyrst sem stundakennari við viðskiptadeild Háskóla Íslands á árunum 1977–1981 og síðar sem prófdómari í almennri lögfræði og réttarsögu við lagadeild Háskóla Íslands á árunum 1984–2002.
Mikil kaflaskipti urðu árið 1998 þegar Þórður varð fyrsti fastráðni starfsmaður fyrirrennara Háskólans í Reykjavík og var falið að annast lögformlega stofnun skólans. Eftir setningu skólans hóf hann kennslu í viðskiptalögfræði við viðskiptadeild árið 1999, fyrst sem lektor og síðar sem dósent.
Snemma árs 2002 lagði Þórður fram hugmynd að stofnun lagadeildar við Háskólann í Reykjavík. Honum var falið að koma deildinni á fót, skipuleggja nám, ráða kennara og móta framtíðarsýn hennar. Lagadeildin var formlega stofnuð sama ár og gegndi Þórður starfi fyrsta forseta hennar á árunum 2002–2011. Jafnframt sat hann í framkvæmdastjórn skólans og kenndi við deildina. Þá var hann formaður stjórnar Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og sat í stjórn Rannsóknarstofnunar skólans í fjármálarétti. Eftir að hann lét af forsetastarfinu starfaði hann áfram við lagadeildina sem aðjúnkt.
Árið 2011 var Þórður skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og gegndi því embætti til ársins 2018.
Hann var heiðursfélagi Association of Fellows and Legal Scholars hjá Center for International Legal Studies og fyrsti heiðursfélagi Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík. Sá heiður var honum sérlega kær, enda byggði hann á viðurkenningu fyrir kjark til nýsköpunar, umbóta og óeigingjarnt starf við þróun laganáms á Íslandi.
Eftirlifandi eiginkona Þórðar er Helga Sigþórsdóttir, viðskiptafræðingur, og kvæntust þau árið 1984. Hann lætur eftir sig dótturina Þórunni Helgu Þórðardóttur, lögmann, tengdasoninn Björgvin Grétarsson, byggingatæknifræðing, og barnabörnin Björgvin Þór Björgvinsson og Þórunni Lovísu Björgvinsdóttur. Þá lætur hann einnig eftir sig stjúpsoninn Sigþór Örn Guðmundsson, tölvunarfræðing, og eiginkonu hans Elínu Kristjönu Sighvatsdóttur, tölvunarfræðing.

Komment