
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa sent kjarnorkukafbáta á viðeigandi svæði, til að mæta yfirlýsingum fyrrverandi Rússlandsforseta um kjarnorkuvopnaeign Rússa.
„Vegna hinna afar ögrandi yfirlýsinga fyrrverandi forseta Rússlands, Dmitry Medvedev ... hef ég fyrirskipað að tveir kjarnorkukafbátar verði staðsettir á viðeigandi svæðum, ef þessar heimskulegu og eldfimu yfirlýsingar skyldu vera eitthvað meira en bara orð,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðlinum sínum, Truth Social.
Medvedev hefur gjarnan tekið stórt upp í sig og í þetta sinn hafði hann minnt á að Rússar ættu kjarnorkuvopn sem beita mætti ef öll ráð þrytu.
„Orð skipta miklu máli og geta oft leitt til ófyrirséðra afleiðinga. Ég vona að þetta verði ekki eitt af þeim tilvikum,“ segir Trump.
Ekki kemur fram hvort svæðin sem Trump vísar til séu nálægt Íslandi, sem liggur mitt á milli ríkjanna tveggja á Norður-Atlantshafi.
Komment