
Tveir einstaklingar sluppu ómeiddir eftir að eldur kom upp í bíl þeirra efst á Öxi um hádegisbil í gær. Ekkert farsímasamband var þar sem atvikið átti sér stað og þurfti vegfarandi að keyra nokkurn spöl til að ná sambandi við Neyðarlínuna.
Yfirlögregluþjónn segir í samtali við Austurfrétt að símasamband á svæðinu mjög stopult og telur það áhyggjuefni fyrir öryggi almennings.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi var fólkið á ferð í suðurátt þegar það tók eftir reyk stíga undan framsæti bílsins. Þau komust út, tóku með sér mikilvæg verðmæti og reyndu að slökkva eldinn, en það tókst ekki. Slökkvilið Múlaþings kom á vettvang og slökkti eldinn, en bíllinn brann gjörsamlega og er metinn ónýtur.
Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn segir að slæmt farsímasamband sé víða vandamál á Austurlandi. Almannavarnanefnd Austurlands og Samband sveitarfélaga á Austurlandi hafa ítrekað bent á þennan vanda og kallað eftir úrbótum.
Komment