
Stýrivextir lækka um 0,25% í dag, samkvæmt einróma ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og verða þeir 7,5%, sem þó er hátt í sögulegu tilliti.
Greinendur höfðu margir hverjir búist við því að engin lækkun yrði á vöxtum í dag, vegna þess að verðbólgutölur höfðu hækkað. Seðlabankinn spáir því nú að verðbólga haldist vel fyrir ofan viðmið á árinu. Það þýðir að verðtryggð lán hækka um samsvarandi hlutfall. „Verðbólga var 4,2% í apríl og hefur minnkað töluvert frá því sem hún var mest fyrir tveimur árum. Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans mun hún haldast nálægt 4% út árið en taka síðan að hjaðna í markmið,“ skýrir peningastefnunefnd í yfirlýsingu sinni.
Vísitala neysluverðs, sem er grunnur verðbólgumælinga, hækkaði meira en búist var við í apríl. Hluti af ástæðunni er hærra matvælaverð. Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands greindi frá því að verð matvæla hafi farið ört hækkandi á þessu ári og að nautakjöt hefði í einhverjum tilfellum hækkað um 20% á einu ári.
„Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar,“ segir peningastefnunefnd. „Þær aðstæður hafa því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5% markmiði bankans.“
Vegna þess að verðbólga jókst umfram væntingar í apríl spáðu greiningadeildir Landsbankans og Íslandsbanka því að engin vaxtalækkun yrði í dag. Arion banki spáði hins vegar 0,25% lækkun.
Næsta ákvörðun um stýrivexti verður ekki tekin fyrr en 20. ágúst.
Komment