
Samkvæmt heimildum CBS News og Reuters er Úkraína nú tilbúin að fallast á friðartillögu sem Bandaríkin hafa lagt fram, þó enn þurfi að leysa úr nokkrum minni háttar atriðum.
„Úkraínumenn hafa samþykkt friðarsamkomulagið,“ sagði bandarískur embættismaður við CBS News. „Það eru aðeins nokkur smáatriði sem þarf að ganga frá, en þeir hafa samþykkt það.“
Úkraínskur embættismaður staðfestir einnig við Reuters að Úkraína hafi samþykkt tillöguna, en að enn séu viðkvæm málefni sem verði rædd beint milli aðila.
Rustem Umerov, sem fer fyrir öryggis- og varnarmálaráði Úkraínu, greindi frá því á samfélagsmiðlum á þriðjudag að Volodymyr Zelensky gæti farið til Bandaríkjanna strax í þessari viku til að ganga frá samkomulaginu.
„Við hlökkum til að skipuleggja heimsókn forseta Úkraínu til Bandaríkjanna eins fljótt og auðið er í nóvember til að ljúka lokaáföngum og semja við Donald Trump forseta,“ skrifaði hann.
Á sama tíma funduðu fulltrúar Bandaríkjanna og Rússlands í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á þriðjudag til að ræða tillöguna.
Talsmaður Vladimirs Pútíns, Dmitry Peskov, sagði á þriðjudag að Rússland hefði ekki fengið uppfært friðarplagg og að eina „efnislega“ tillagan væri upphaflega 28 liða friðaráætlun Trumps, sem þeir héldu sig við.
Áætlunin, sem gagnrýnd hefur verið fyrir að vera „óskalisti Rússa“, gæti samkvæmt Peskov verið „góður grunnur fyrir samningaviðræður“.
Trump kynnti 28 liða friðaráætlun í síðustu viku. Í kjölfar viðræðna í Genf um helgina var endurskoðuð útgáfa áætlunarinnar samin af Bandaríkjunum og Úkraínu. Nokkur viðkvæm atriði voru þó fjarlægð og verða rædd beint milli Zelensky og Trumps.

Komment