Anna Kristín Arngrímsdóttir leikkona er látin og var hún 76 ára gömul. Vísir greindi frá andláti hennar. Anna Kristín fæddist árið 1948 og ólst upp á Dalvík en flutti til borgarinnar til að læra leiklist í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur þá 17 ára gömul. Eftir leiklistarnámið lék hún fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur en færði sig svo yfir í Þjóðleikhúsið þar sem hún starfaði til 2011. Á þeim tíma varð hún ein þekktasta og virtasta leikkona landsins og lék í mörgum af vinsælustu sýningum 20. og 21. aldar. Ásamt því að leika á sviði kom hún fram í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Anna Kristín lætur eftir sig sambýlismann og þrjú börn.