Að venju var ýmislegt að gera hjá lögreglunni í nótt en hún greinir frá hluta þess í dagbók sinni. Tilkynnt var um einstakling sem hafði brotið og bramlað í verslun í Múlahverfi. Sá hafði einnig verið grunaður um slíkt hið sama í stigagangi í miðbænum. Viðkomandi var handtekinn og gisti fanga geymslur. Tilkynnt um innbrot í Hafnarfirði þar sem starfsmenn fyrirtækis höfðu komið að manni inni á afgirtu svæði. Starfsmennirnir lokuðu manninn inni á meðan lögreglan kom á vettvang. Maðurinn reyndist vera eftirlýstur í kerfum lögreglu og var hann vistaður í fangaklefa. Þá fékk lögreglan tilkynningu um einstakling sem hafði ruðst inn í íbúð og ráðist á einn íbúa. Maðurinn fór á brott og reyndi að brjótast inn í fleiri íbúðir. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa. Þá þurfti lögreglan, eins og alltaf, að stoppa stúta og fíkniefnaneytendur sem voru úti að aka.